135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

óháð áhættumat vegna Urriðafossvirkjunar, Holtavirkjunar og Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

52. mál
[17:46]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir má ekki misskilja það að hér er ekki einungis verið að ræða um starfsmenn Landsvirkjunar. Það er verið að tala um hönnuði og þá sem bera ábyrgð á hönnun þessara mannvirkja. Hvar þeir eru starfsmenn má einu gilda, hvort þeir eru hjá verkfræðiskrifstofum eða hjá Landsvirkjun. Málið er að þegar þeir taka síðan að sér að leggja mat á eigin verk, á burðarþolið í þakinu á húsinu sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, þá eru þeir ekki hæfir til þess. Þetta er spurning um hæfi. Og það er vegna þess sem niðurstaða sem út úr slíku háðu áhættumati kemur verður ekki marktæk. Menn eru að gjaldfella eigin sérfræðiþekkingu ef þeir taka hvort tveggja að sér, að hanna mannvirki og meta hönnunina sem slíka. Að sjálfsögðu hlýtur hver verkfræðingur að reikna út burðarþol og gera mannvirki, hvert sem það er, eins öruggt og hann hefur þekkingu og getu til en það er hins vegar ekki hans að gera síðan áhættumat heldur annarra.

Það er mjög mikilvægt, rétt eins og við tölum um annað í samfélaginu, þegar við tölum um að menn þurfi að uppfylla hæfisreglur, menn mega ekki vera systur eða bræður eða hvað það nú er og fjalla um mál viðkomandi, að á sama hátt megi menn ekki fjalla sjálfir um eigin hæfi og eigin verk.