135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:49]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það mál sem við tölum um núna er afskaplega brýnt hagsmunamál fyrir dreifbýli landsins eins og alþjóð veit og hefur svo sem verið baráttumál hér til áratuga. (Gripið fram í.) Framsóknarflokknum var nú ætlað það áðan að eiga fjárlög þessa árs og á nú þrífösun rafmagns undanfarna áratugi — vissulega hefur hann komið að landstjórninni og ég vil koma því hér að að stigin voru mjög stór skref í þessum efnum á síðasta kjörtímabili sem eru mikils virði. Þannig náðu stór svæði í mínu kjördæmi þrífösun í rafmagni á því tímabili. En nú liggur það fyrir, samkvæmt svari frá iðnaðarráðherra, sem kom fram hér á þinginu í haust, að ekki stendur til að gera sérstakt átak í þessu máli. Ég tel ástæðu til að þingið beiti sér í því við næstu fjárlagagerð að þessum fyrirætlunum verði breytt. Við sjáum fram á að um 150 kílómetrar af rafmagnsköplum í dreifikerfinu verði endurnýjaðir til þrífösunar þar sem eru 3.700 kílómetrar eftir. Og þá er það hverjum manni ljóst að það er ansi langt í land að við náum þrífösun um allt land.

Í dag eru um 2.500 lögbýli í landinu sem ekki hafa þriggja fasa rafmagn og það er algjörlega óviðunandi staða og verður auðvitað erfiðari eftir því sem tækni fleygir fram. Það er mjög bagalegt að ríkisstjórnin skuli ekki taka neitt undir með hinum dreifðu byggðum einmitt þegar tímar þar eru mjög erfiðir vegna aflasamdráttar og fleiri atriða sem öll hafa áhrif á þessum svæðum.

Ég hvet stjórnarþingmenn til að beita afli sínu til þess að breyta þeirri afstöðu sem kom fram í svari iðnaðarráðherra á síðastliðnu hausti. Ég sakna þess reyndar að (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra er ekki hérna en ég treysti flokksbræðrum hans (Forseti hringir.) til að bera honum þessi boð.