135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

þjónustusamningar um málefni fatlaðra.

406. mál
[18:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna svari hæstv. ráðherra og vonast til þess að samningurinn verði endurnýjaður eins og fram kom í svarinu á allra næstu dögum þannig að þetta mikilvæga starf sem þarna er unnið sé tryggt.

Hjá mér vaknar hins vegar sú spurning af hverju samningstíminn er jafnstuttur og raun ber vitni — ef ég heyrði rétt — þ.e. út árið 2008 en ekki lengur. Ég hefði líka kosið að heyra nánari skýringar á þeim drætti sem orðið hefur þennan tíma á því að samningurinn væri gerður og líka skýringu á halla í rekstri.

Það rekur mig til að segja jafnframt að fjárhagsstaða sveitarfélaga á landsbyggðinni er almennt slök og það kallar á, eins og við í Vinstri grænum höfum margoft sagt, að útvíkka tekjustofna sveitarfélaga þannig að þau séu betur í stakk búin til þess að mæta félagslegum skyldum eða skyldum sínum við íbúa sveitarfélaga.

Það liggur líka fyrir að færa eigi þennan málaflokk fatlaðra til sveitarfélaga á næsta árum. Það er því mjög mikilvægt að fjármagn sé tryggt til að þróa þjónustuna og fylgja eftir þeirri hugmyndafræði sem hefur verið mótuð af félags- og tryggingamálaráðuneytinu í drögum að skýrslu, Mótum framtíð. Þjónusta við fötluð börn og fullorðna , sem er frá desember 2006.

En það allra brýnasta í þessu máli er að tryggja fjármagn til langs tíma, að horfa til framtíðar, horfa til margra ára í senn þannig að ekki þurfi að koma til þess að samningar séu lausir eða að engir þjónustusamningar séu í gangi í jafnlangan tíma og raun ber vitni. Ég ítreka að lokum þakkir mínar til hæstv. ráðherra.