135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

norræna ráðherranefndin 2007.

452. mál
[11:22]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að það er svolítið sérstakt að hafa ekki hæstv. samstarfsráðherra Össur Skarphéðinsson í salnum þannig að samtalið verður allt öðruvísi fyrir vikið. Hæstv. samgönguráðherra fór með skýrsluna í hans stað þar sem hann er fjarri góðu gamni í augnablikinu. Ég vil eigi að síður spyrja hæstv. samgönguráðherra út í eitt mál — ég geri mér grein fyrir að hann veit kannski ekki alveg svarið en getur stuðst við þá embættismenn sína sem hér eru — og það er það sem kom fram í ræðu hæstv. ráðherra um að upplýsingaskrifstofur norrænu félaganna sem eru utan höfuðborgarsvæða verði lagðar niður. Við erum með slíka skrifstofu á Akureyri, hún hefur staðið sig afskaplega vel og gegnt mjög mikilvægu hlutverki og þarf ekki að fara yfir það frekar hér. Hæstv. ráðherra sagði að í stað þess að reka skrifstofurnar áfram mundi norræna félagið í hverju landi fyrir sig fá styrk upp á sömu upphæð og fór til að reka skrifstofurnar utan höfuðborgarsvæðanna. Það var ágætur árangur út af fyrir sig að ná því fram og við Íslendingar beittum okkur í því sambandi, bæði þingmenn og ráðherrar. Ég vil gjarnan vita, virðulegur forseti, hvort fara þurfi í bardaga um þetta á hverju einasta ári eða hvort það ríki skilningur innan ráðherraráðsins á því að hafa þetta fyrirkomulag inni a.m.k. næstu árin þannig að norrænu félögin í hverju landi fyrir sig geti þá nýtt þessa fjármuni í mikilvæg störf á sínum vettvangi af því að þau félög sinna alveg geysilega mikilvægu starfi á Norðurlöndunum við að efla norrænt samstarf.