135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

skýrslur um norrænt samstarf 2007.

452. mál
[12:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslur Norðurlandasamstarfsins, fjórar skýrslur í einum pakka, og hér er gríðarlega mikið efni undir og svo sem ekki einfalt að höndla umræðuna eða hafa hana hnitmiðaða eða mjög einbeitta því að það er farið afar vítt yfir. Ofan í kaupið er samstarfsráðherra Norðurlanda, hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson, ekki með okkur hér í dag, sem ég tel afar miður, því að samstarf nefndanna eða þeirra deilda sem starfa, hvort sem það eru deildir í Norðurlandaráði, Vestnorræna ráðið eða deild um norðurskautsmálin þá höfum við eðli máls samkvæmt mikið samstarf við samstarfsráðherrann og það sem við höfum að segja hér höfum við fyrst og síðast að segja við samstarfsráðherrann. Ég undirstrika því gagnrýni mína í þessari umræðu, ég tel það afar miður að forseti skyldi hafa komið málum þannig fyrir að þessi umræða færi fram þegar samstarfsráðherrann er fjarri góðu gamni, ég átel að þetta skyldi ekki hafa verið gert með þeim hætti að hér gætu allir verið til staðar.

Það kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar að loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra hafi verið til mikillar umfjöllunar á vettvangi Norðurlandaráðs á síðustu árum og árið 2007 var kannski það ár sem mest hefur farið fyrir þessari umræðu. Ég geri ráð fyrir að umræðan komi til með að vaxa á þessu ári og næsta, ekki síst vegna fyrirhugaðs loftslagsfundar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Fundinn á að halda 30. nóvember til 11. desember og það verður í verkahring þeirra sem starfa að Norðurlandasamvinnu að undirbúa hann að mjög miklu leyti. Ein af tilmælunum sem samþykkt hafa verið á Norðurlandaráðsþinginu varða þennan fund og mig langar til að fara nokkrum orðum um þau tilmæli hér. Ég álít að þetta varði mál sem íslenskir þingmenn og Alþingi Íslendinga verði að taka til beinnar umfjöllunar og meðhöndlunar á Alþingi því að við höfum hlutverki að gegna í undirbúningi þessa mikilvæga fundar í Kaupmannahöfn.

Norðurlandaráð beindi tilmælum til norrænu ráðherranefndarinnar í sex liðum um að undirbúa þennan fund. Í fyrsta lagi með því að standa fyrir fræðsluátaki meðal skólanema um loftslagsbreytingar og leiðatogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Þetta er fræðsluátak sem þarf að hefja í öllum norrænu ríkjunum. Okkur þingmönnum sem störfum á vettvangi Norðurlandaráðs langar öll til þess að okkar fólk, æskan og upprennandi þjóðfélagsþegnar, þeir sem eiga að taka við stjórninni að okkur gengnum, sé vel menntað á þessu sviði og geti fært fram skilaboðin, hin mikilvægu skilaboð um aðferðir til úrbóta í þessum efnum. Norðurlandaráð tekur undir þau sjónarmið.

Norðurlandaráð vill líka að norræna ráðherranefndin sjái til þess að staðið verði fyrir umræðum um markmið í loftslagsmálum með breiðri þátttöku almennings og að sjónum verði beint að ábyrgð einstaklingsins ásamt félagslegum afleiðingum loftslagsbreytinga fyrir samfélagið þar sem áhrifin verða mest og íbúa þeirra.

Í þriðja lagi eru tilmælin um það að við stöndum fyrir sýningum og kynningu á endurnýjanlegum orkugjöfum og umhverfistækni í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þessi liður heyrir mjög upp á okkur Íslendinga. Við þurfum að átta okkur á því hversu framarlega við stöndum varðandi orkumál, þ.e. endurnýjanlega orkugjafa og ýmsa þætti er varða umhverfistækni og við þurfum þess vegna að undirbúa það í tíma að okkar framlag á fundinum í Kaupmannahöfn verði stórt, umfangsmikið og gott og að eftir því verði tekið.

Sömuleiðis er í tilmælunum gert ráð fyrir því að skipulagðar verði norrænar hringborðsumræður með fremstu sérfræðingum Norðurlandanna á sviði orkumála til undirbúnings ákvarðana um ný metnaðarfull markmið Norðurlanda í orkumálum. Við Íslendingar eigum sérfræðinga á þessu sviði sem við þurfum að fara að undirstinga núna til þess að undirbúa það að taka þátt í svona hringborðsumræðum sem verða á mjög háu háu plani þar sem helstu sérfræðingar Norðurlandanna eiga samtal við restina af heimsbyggðinni, við þá sem starfa innan Sameinuðu þjóðanna og leiða starfið í loftslagsmálunum. Ég held því að þarna höfum við verk að vinna og þurfum að fara að undirstinga sérfræðinga okkar.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir í tilmælunum að hrint verði úr vör verkefni sem miði að því að þróa nýjar lausnir í orkumálum til að draga úr koltvísýringsmengun, auk þess að þróa enn frekar rannsóknarsamstarf í umhverfismálum á norrænum og alþjóðlegum vettvangi.

Að lokum gengur sjötti punkturinn út á það að tryggja í fjárlögum norrænu ráðherranefndarinnar fyrir árin 2008 og 2009 nægilega fjárveitingu til að undirbúa loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 2009. Þessi síðasti punktur kemur inn á 60 milljónirnar sem við ræddum hér fyrr í dag. Það kostar gríðarlega mikið að hýsa þennan fund Sameinuðu þjóðanna og ef Norðurlandaráð ætlar að hafa fundinn svona ítarlegan, svona umfangsmikinn og að hann risti jafndjúpt og eigi jafnríkan stað í samfélaginu og vilji stendur til þarf í það gríðarlegt fjármagn. Mín tilfinning er afar sterk um að — við erum að tala um 120 milljónir, ef ég tek tvisvar sinnum 60 milljónir þá erum við að tala um rúmlega einn milljarð íslenskra króna, 1,2 milljarða ísl. kr. — ef þetta hnattvæðingarverkefni norrænu ráðherranefndarinnar verður ekki í tengslum við þessa metnaðarfullu yfirlýsingu Norðurlandaráðs þá séum við að eyða peningunum í vitleysu eða henda þeim út um gluggann. Það er því mjög mikilvægt að þau skilaboð fari í gegnum samstarfsráðherra okkar, inn á vettvang ráðherranefndarinnar og að skilaboðin séu skýr og þau séu með þessum hætti: Fjármunirnir eiga á næstu tveimur árum, þessu og næsta, að fara í fundinn í Kaupmannahöfn. Það er gríðarlega mikilvægt og ég efast um að við séum aflögufær um rúman einn milljarð í eitthvað annað verkefni.

Hnattvæðingarverkefnið sem slíkt er hins vegar ágætt, góðra gjalda vert, en það er ekki komið nægilega langt til þess að við getum farið að eyða í það svona miklum peningum. Á fundi nefndar Norðurlandaráðs nú í janúar kom fram mjög hörð gagnrýni á ráðherranefndina vegna þess að hún hefur ekki enn sýnt á spil sín, í hvað hún ætli að setja þessar 60 milljónir. Það eina sem er haldfast í þeim efnum eru fjórar milljónir sem eiga að fara í skilgreindan fund sem varðar hnattvæðingarmálin en það er eina verkefnið sem búið er að lýsa af þessum 60 milljónum.

Ég tel líka að grundvöllurinn sem hnattvæðingarverkefni norrænu ráðherranefndarinnar hvílir á sem er að hluta til skýrslan um Norden som global vinderregion , eða Norðurlöndin sem sigursvæði í hnattvæðingu, sú skýrsla er að mínu mati meingölluð. Hún er skrifuð af dönsku fyrirtæki Den danske tænketank Mandag Morgen ráðgjafarfyrirtæki, sem gæti kallast „Thinktank“ upp á engilsaxnesku og gefur út mjög athyglisvert blað á hverjum mánudagsmorgni, held ég, sem fjallar um samfélagsmál og þar eru sjónarmið viðskiptalífsins mjög ofarlega á baugi. Ég hef talað fyrir því að við áttum okkur á því þegar við erum að taka við vinnu svona sérfræðinga að þá á það eftir að fara í gegnum hina pólitísku síu og ef þau sjónarmið sem norræna ráðherranefndin ætlar að keyra eftir eru samhljóma því sem kom fram í skýrslunni um Norden som global vinderregion þá held ég að það skorti aðeins upp á þann væng sem ég starfa fyrir í pólitíkinni, þ.e. vinstri vænginn. Frú forseti. Ég tel því að hér séu ákveðnir þættir sem beri að hafa aðgát við og þetta sé ekki allt svo einfalt í framkvæmd.

Eitt af því sem mig langar til að nefna í skýrslu þeirri sem hér liggur fyrir á þskj. 719 er umræðan um sjálfsstjórnarsvæðin en í skýrslunni kemur fram að vegna óska Færeyja um aðild að opinberu norrænu samstarfi á sama grundvelli og norræn ríki hafi verið gerð stór og mikil úttekt á vegum norrænu ráðherranefndarinnar árið 2006 og niðurstaða þeirrar úttektar birtist í svokölluðu Álandsskjali. Eins og kom fram í ræðu hv. formanns Íslandsdeildarinnar fékk hún ákveðna afgreiðslu á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló í nóvember á síðasta ári.

Nú er það svo að samstarfsráðherrar Norðurlandanna voru krafðir svara af þeirri sem hér stendur á Norðurlandaráðsþinginu um hver hafi verið rökin fyrir því að þeir lögðust gegn því að Helsingfors-samningnum yrði breytt til þess að sjálfsstjórnarsvæðin gætu átt sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Svör þessara samstarfsráðherra, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, komu ekki fram á Norðurlandaráðsþinginu og því að ítrekaði ég spurningu mína skriflega og sendi þeim hana og nú hafa borist svör frá þessum þremur ráðherrum. Þetta er reyndar sameiginlegt svar allra ráðherranna og það verður að segjast eins og er að það olli mér talsvert miklum vonbrigðum því að svör ráðherranna þriggja sem hér um ræðir voru mjög loðin. Af þeim má skilja að þeir styðji andann í Álandsskjalinu, að þeir vilji auka möguleika sjálfsstjórnarsvæðanna á því að koma beint að Norðurlandasamstarfinu, þess vegna séu tillögurnar í Álandsskjalinu þeim að skapi, en þeir skýra ekki hvers vegna þeir eru mótfallnir því að Helsingfors-samningnum verði breytt. Ég tel að Færeyingar komi til með að reka þetta mál áfram, við séum ekki búin að heyra síðasta vers í þessum söng. Við vitum líka að sjálfstæðisbarátta Færeyinga og jafnvel Grænlendinga er undirliggjandi í þessum óskum þannig að ég tel að um þær óskir verði fjallað nánar í nánustu framtíð. Ég er ánægð með þá niðurstöðu sem náðist í Ósló í nóvember sl., þ.e. að Íslandsdeild Norðurlandaráðs skyldi einhuga standa með Dönum í atkvæðagreiðslunni en þar studdum við að farin yrði sú leið sem Færeyingarnir hafa óskað eftir.

Hér hefur verið rætt um það að niðurskurðurinn vegna hnattvæðingarverkefnisins bitni mögulega á menningarsamstarfinu og upplýsingaskrifstofunum. Ég vona auðvitað að okkur takist að standa vörð um upplýsingaskrifstofurnar, það er okkur verulegt áhyggjuefni ef fara á að skerða framlögin til þeirra. Við þingmennirnir í Íslandsdeildinni höfum staðið sem einn maður á bak við sjónarmið upplýsingaskrifstofanna og komum til með að berjast áfram fyrir því að það mál fari örugglega á réttan veg og endi ekki með ósköpum.

Það er dálítið athyglisvert varðandi menningarsamstarfið að í skýrslu þeirri sem hér liggur fyrir á þskj. 719 er fjallað sérstaklega um verðlaun Norðurlandaráðs, bókmenntaverðlaunin, tónlistarverðlaunin, náttúru- og umhverfisverðlaunin og kvikmyndaverðlaunin. Það er mjög mikill fengur að slíkum upplýsingum um þessi verðlaun og þá listamenn sem hafa hlotið þau á síðasta ári. Ég bendi því á að skýrslurnar sem slíkar hafa að geyma mikinn fróðleik sem ekki ratar inn í þessa umræðu en af því að menningarsamstarfið er nú undir skurðarhnífnum vil ég hvetja þá hv. þingmenn sem áhuga hafa á að kynna sér það samstarf og þau verðlaun sem við höfum verið að veita. Í skýrslunni er ríkulegt lesefni sem lýsir því hversu mikilvægt þetta samstarf er og hversu þessi verðlaun opna okkur aðgang að verkum einstakra listamanna sama hvar á Norðurlöndum viðkomandi býr.

Ég tel því að hér sé um gríðarlega mikilvægt samstarf að ræða sem sé í okkar verkahring og í okkar þágu að standa vörð um. Framkvæmdastjóri norrænu ráðherranefndarinnar sagði á fundi sem hann átti með þingmönnum Norðurlandaráðs í Stokkhólmi fyrir skemmstu að þrátt fyrir að menningargeirinn hafi alltaf verið fjárfrekur, hafi fengið mikið og hafi virkilega notið stuðnings og þessa norræna samstarfs, þá mætti ekki líta á hann sem einhverja heilaga kú, þ.e. að við yrðum að átta okkur á því að á endanum þyrfti kannski að skera þar líka. En eins og málum er háttað núna og eins vel og menningarsamstarfið hefur heppnast segi ég fyrir minn hatt: Ég kem til með að mótmæla því kröftuglega ef niðurskurðurinn á að vera fyrst og síðast þar, í menningargeiranum.

Hæstv. forseti. Aðeins eitt að lokum. Samhliða Norðurlandaráðsfundunum og samstarfi Norðurlandaráðs hefur verið haldið þing ungra Norðurlandabúa. Það þing á sér enga sérstaka rödd hér og mér þykir það dálítið miður, en það hafa verið haldin „semínör“ og ráðstefnur á vegum ungra norrænna borgara sem hafa verið athyglisverð og það væri kannski þörf á því að huga að því að birta einhverjar niðurstöður frá ungu norrænu þingunum í skýrslunni okkar frá Norðurlandaráði, þannig að ég bið um að það verði hugleitt.