135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[17:17]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég flutti ræðu áðan við fyrstu umræðu um frumvarpið og saknaði þess þá að hér væri ekki staðgengill utanríkisráðherra. Mér var kunnugt um að utanríkisráðherra yrði ekki á landinu þegar þessi umræða færi fram. Af því að rætt hafði verið um að staðgengill ráðherrans yrði hér þá saknaði ég þess og hafði orð á því.

Nú er hæstv. samgönguráðherra kominn hingað og mun vera staðgengill utanríkisráðherra. Hann hefur haft mikið að gera á þingfundi í dag við að fara í föt hinna ýmsu félaga sinna í ríkisstjórninni og það fer honum ágætlega.

Það voru nokkur atriði sem ég vildi spyrja um. Ég vil samt ítreka við hæstv. ráðherra að ég og flokksmenn mínir tökum undir meginmarkmiðin í frumvarpinu eins og þeim er lýst í öllum aðalatriðum þótt þarna séu nokkur atriði sem við hefðum viljað sjá með öðrum hætti. Við áskiljum okkur rétt til þess að fylgja þeim málflutningi eftir, jafnvel með tillöguflutningi eftir atvikum.

Í fyrsta lagi vil ég taka það upp sem hér er fjallað um bæði í 3. gr. og í 10. gr., þ.e. skýrslur utanríkisráðherra og upplýsingagjöf til Alþingis. Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að ráðherra leggi annað hvert ár fram tillögu til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu og heildstætt yfirlit og síðan er í 10. gr. talað um skýrslu um framkvæmd annað hvert ár.

Spurningin er í fyrsta lagi þessi: Er ekki full ástæða til að ræða þessi þróunarsamvinnumál oftar en á tveggja ára fresti jafnvel þótt þingsályktunin sé aðeins lögð fram annað hvert ár? T.d. mætti koma skýrsla árlega um þetta atriði.

Í öðru lagi spyr ég að því hvort 6. gr. sé ekki algjörlega ofaukið í þessu frumvarpi. Hún lýtur að störfum í þágu friðar. Ég grundvalla það sjónarmið á því að það gilda í landinu lög um íslensku friðargæsluna þannig að það er spurning af hverju þarf að draga það inn í lög um Þróunarsamvinnustofnun.

Í þriðja lagi vildi ég nefna að í 7. gr. er fjallað um skipan framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar og það vekur athygli mína að ekki er gert ráð fyrir að forstjórinn sé skipaður til einhvers tiltekins tíma, t.d. fimm ára eins og algengt er orðið með forstöðumenn ríkisstofnana. Ég held að það sé nú hin almenna regla þar að þeir séu skipaðir til tiltekins tíma. Hér er ekki gert ráð fyrir því þannig að ég velti því fyrir mér af hverju það er.

Ég vil líka spyrja út í 11. gr. um reglugerðarheimildir, hvort ráðherra telji að það sé nauðsynlegt að vera með svona opnar og, að því er virðist, ótakmarkaðar reglugerðarheimildir í lögunum. Hvort ekki sé eðlilegt að binda þær meira við tiltekna þætti eins og sannarlega er gert í 4. gr. þar sem segir að ráðherra setji í reglugerð nánari reglur um hlutverk samstarfsráðs.

Á blaðsíðu 15 í umfjöllun um 7. gr. er rétt fyrir neðan miðju fjallað um sérstakan stýrihóp innan utanríkisráðuneytisins sem á að vera skipaður ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, sviðsstjóra þróunarsamvinnusviðs og skrifstofustjórum á skrifstofum þróunar- og íslensku friðargæslunnar og auk framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar. Þessum hópi er ætlað það hlutverk að sinna innra aðhaldi og framkvæmd innra eftirlits með faglegri stefnumótun, daglegri framkvæmd og rekstri.

Mér finnst það skjóta skökku við að þar gegni stýrihópur í raun hlutverki stjórnar Þróunarsamvinnustofnunar eins og hún er í dag sem á að sjálfsögðu að hafa eftirlit með starfseminni. Mér finnst það skjóta skökku við að það séu innanbúðarmenn í utanríkisráðuneyti og í stofnuninni sjálfri sem eiga að hafa eftirlit með því sem hún er að gera. Ég kannast bara ekki við að svona sé staðið að málum annars staðar og fyndist áhugavert að heyra viðhorf ráðherrans til þess.

Þetta er m.a. ítrekað í síðustu efnisgreininni í umfjöllun um 11. gr. þar sem tekið er fram að ekki sé gert ráð fyrir sérstakri stjórn Þróunarsamvinnustofnunar heldur munu þau verkefni sem eru framkvæmdalegs eðlis og lúta innra eftirliti færast til stýrihóps. Ég sé ekki alveg að þetta gangi almennilega upp.

Þetta voru nú þau efnisatriði sem ég vildi spyrja um. Það kann vel að vera að staðgengill utanríkisráðherra sé ekki reiðubúinn að svara fyrir utanríkisráðherrann um þessi atriði en alla vega finnst mér mikilvægt að þau séu tekin niður og komist til skila til ráðherrans. Sömuleiðis finnst mér mikilvægt að þau komist til umfjöllunar í nefndinni þegar hún tekur þetta mál fyrir.