135. löggjafarþing — 77. fundur,  12. mars 2008.

endurskoðun úthlutunar á þorskkvóta.

[13:53]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Nú ber svo við að hringinn í kringum Ísland eru allir flóar og firðir fullir af þorski og íslenskir sjómenn og fólk sem hefur atvinnu af því að vinna fisk í landi fær ekki tækifæri til að nýta þetta. Tilefni fyrirspurnar minnar er því hvort ekki sé ástæða til að endurskoða úthlutun á þorskkvóta og bæta við að minnsta kosti, eins og við lögðum til í Frjálslynda flokknum og fluttum um frumvarp í haust, 40 þús. tonnum til að taka mesta höggið af sjávarbyggðunum. Þó svo að ég telji, eins og ég hélt fram í kosningabaráttunni í fyrravor, að óhætt væri að veiða 250 þús. tonn af þorski á hverju ári næstu þrjú árin.

Vart hefur orðið við þorsk á grálúðumiðum sem er mjög óvenjulegt, á Hampiðjutorginu svokallaða, mitt á milli Íslands og Grænlands. Það er 10–12% aukning í þorski á beitningavélabátum og trillur á Suðurnesjum eru að tvíhlaða á daginn núna. Við höfum notað svokallað togararall til að mæla þorskstofninn og það er löngu vitað að það gengur ekki upp að nota það til að mæla hann.

Þess vegna hef ég lagt til, og ég skora á ráðherra að snúa sér að því og hvet hann til þess, að bætt verði við þorskkvótann sem fyrst þannig að menn geti nýtt sér þær þorskgöngur sem eru inni á flóum og fjörðum í dag því að það er auðvitað ekki síður ástæða til að bæta við (Forseti hringir.) þorskinn en við loðnuna eins og gert hefur verið.