135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

embætti umboðsmanns aldraðra.

396. mál
[14:36]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og heyra má af þeim umræðum sem hér hafa farið fram þá eru skiptar skoðanir um hvort stofna eigi til embættis umboðsmanns aldraðra. Það er auðvitað ekki rétt sem hv. þingmaður sagði að hann er hér og nú búinn að fullyrða að ekkert verði af þessu. Það var ekki hægt að lesa það út úr orðum mínum hér áðan. (Gripið fram í.) Já, ég er að tala sem félags- og tryggingamálaráðherra og ég segi að ég hef ekki afskrifað eitt eða neitt í því. Ég hef talið fram þá vankanta sem á þessu geta verið og hér hefur verið nefnt að þá yrði líka kallað eftir umboðsmanni fatlaðra. Ég er sannfærð um að það getur einnig orðið þannig að ég hef sagt að það væri mikilvægt að skoða þessi mál heildstætt og það er það sem ég ætla mér að gera. Ég tel t.d. að rétt væri að skoða hvort ekki væri rétt að leita álits samstarfsnefndar um málefni aldraðra sem á að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í þessum málum. Það má vera að ég geri það og að ég taki þetta upp við hagsmunasamtökin og ræði þetta mál áfram. Ég er sannarlega ekki búin að afskrifa það þó að það séu ákveðnar leiðir sem ég vil skoða í þessu sambandi áður en ég tek þetta mál upp í ríkisstjórn. En ég vil líka segja það, af því að hv. þingmaður fullyrðir að ekkert sé gert að því er varðar kjör þeirra verst settu, að sú fullyrðing er auðvitað alröng. Þegar er byrjað að taka á kjörum þeirra verst settu í því frumvarpi sem er til meðferðar nú á Alþingi. Það verður gert enn frekar í þeirri heildarendurskoðun sem nú fer fram á almannatryggingalöggjöfinni og vonandi sér dagsins ljós í lok þessa árs.