135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:52]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Síðastliðinn fimmtudag var dreift á Alþingi skýrslu iðnaðarráðherra um kostnað við Kárahnjúkavirkjun, sem þingflokkur vinstri grænna óskaði eftir. Skýrslubeiðnin var ákaflega skýr. Því vekur það athygli hversu loðið og óaðgengilegt svarið er.

Hæstv. iðnaðarráðherra lét því miður Landsvirkjun eftir að velja og hafna eftir hentugleikum úr þeim spurningum sem Alþingi samþykkti að beina til ráðherrans 16. október síðastliðinn. Því er mörgum spurningum enn ósvarað.

Enginn kostnaður sem fellur á aðra en Landsvirkjun er talinn til kostnaðar við virkjunina. Munar þar mestu um flutningsmannvirkin, þ.e. háspennulínur og möstur, sem er væntanlega að finna í bókhaldi Landsnets nú um stundir. En þau eru óumdeilanlega hluti þessarar framkvæmdar. Skattaskuldir ríkisins við Impregilo hefðu heldur aldrei komið til nema vegna Kárahnjúkavirkjunar. Aðeins þessir tveir liðir hækka heildarniðurstöðuna um 14–15 milljarða kr.

Þá vekur athygli að heildarkostnaður samkvæmt Landsvirkjun er miðaður við september 2007 en ekki síðustu áramót, sem mundi hækka áfallinn kostnað um litla 3,2 milljarða. Einnig vekur athygli að fjármagnskostnaður virðist ekki reiknaður eftir 30. september síðastliðinn á þeim verkum sem ólokið er.

Herra forseti. Það tók hæstv. iðnaðarráðherra á fimmta mánuð, eða 11 vikur umfram leiðbeiningu þingskapa, að skila skýrslunni. Það er ámælisvert í ljósi þess að Landsvirkjun hélt blaðamannafund 22. janúar síðastliðinn þar sem allt sem hér er skrifað kemur fram. Það vekur grunsemdir og er erfitt, herra forseti, að komast hjá þeirri hugsun að skýrsla iðnaðarráðherra sé í raun lítið annað en sex vikna gömul fréttatilkynning frá Landsvirkjun.

Þingflokkur Vinstri grænna er að fara ítarlega yfir þessa skýrslu. Við munum óska eftir skriflegum skýringum á nokkrum atriðum sem hér hafa verið nefnd. Einnig munum við óska eftir ítarlegum upplýsingum um hvernig staðið var að útreikningi fjármagnskostnaðar og við hvaða vísitölur er miðað í svarinu.