135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

410. mál
[11:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég fara nokkrum almennum orðum um þetta frumvarp. Þau eru jákvæð, hér er almennt verið að stíga spor fram á við, almennt er verið að bæta kjör öryrkja og aldraðra. Ég vil sérstaklega fagna því lagaákvæði sem kveður á um afnám tekjutenginga maka.

Þetta tel ég vera mikið framfaramál og mannréttindamál sérstaklega þegar öryrkjar eiga í hlut. Aldraðir hafa líka barist fyrir þessu í sínum hópi og samtökum og það er ánægjulegt að þetta baráttumál þeirra nái fram að ganga. Mér hefur fundist tekjutengingin varðandi öryrkja sérlega sár og fagnaðarefni að þetta skuli leiðrétt með þessum lögum. Þetta er almennt um lögin.

Síðan er hitt sem við hljótum að horfa til en það er að tekjulægstu hóparnir, þ.e. öryrkjar sem allra minnst hafa, fá engar bætur með þessu frumvarpi eða sáralitlar. Að einhverju leyti er reyndar verið að laga í átt til línulegrar uppfærslu, með leiðréttingum sem eru aldurstengdar örorkubætur, nokkuð sem lofað var fyrir kosningarnar 2003 í flóðlýstu Þjóðmenningarhúsi. Þar var Framsóknarflokkurinn að boða til kosninga en þau fyrirheit náðu aldrei að fullu fram að ganga. Það var gagnrýnt mjög harðlega hér í þingsalnum, af hálfu hverra? Jú, frjálslyndra, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þess vegna vorum við mörg hver að vona að þessi gömlu sviknu fyrirheit yrðu leiðrétt með þessu frumvarpi.

Þetta er gert að hluta til, ef ég fer rétt með þá eru 200 milljónir látnar inn í þennan farveg en á sínum tíma var talað um að 500 millj. kr. hefðu þurft að koma til viðbótar. Ég spyr: Hvernig stendur á því að Samfylkingin, eftir allar hinar digru yfirlýsingar sem voru gefnar hér í ræðustóli, leiðréttir þetta ekki hið snarasta? Það vildi Samfylkingin gera á sínum tíma þegar hún hafði ásamt okkur hinum stór orð um vanefndir stjórnvalda gagnvart Öryrkjabandalaginu, að það ætti að gera hér og nú. Það var sagt hér fyrir mörgum árum og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er það þá ekki gert í þeim fyrstu skrefum sem stigin eru af hálfu Samfylkingarinnar?

Ég vil taka það fram að á sínum tíma þótti mér aldurstengingin almennt vera mjög jákvætt spor fram á við. Mjög jákvætt vegna þess að eins og málum háttar í okkar kerfi þá njóta öryrkjar sem hafa verið á vinnumarkaði góðs af framreikningi örorkubóta, réttinda innan lífeyrissjóðakerfisins. En til eru þeir sem aldrei fóru út á vinnumarkaðinn og eiga ekki innhlaup í þessa framreikninga lífeyrissjóðanna. Þannig að mér þótti þetta jákvætt spor fram á við og fagnaði því mjög þegar það var ákveðið í síðustu ríkisstjórn. En ég spyr, hvernig stendur á því að Samfylkingin eftir allar hinar digru yfirlýsingar stendur ekki við sín stóru orð hvað þetta snertir?

Ég ítreka að það er slæmt til þess að vita að lægstu hóparnir skuli ekkert fá með þessu frumvarpi því það er staðreynd að undanteknum þeim sem njóta að einhverju leyti lítils háttar leiðréttinga við vegna þeirra ákvæða sem ég vísaði til.

Síðan er hitt náttúrlega augljóst að ódýrustu kostirnir eru alltaf valdir gagnvart öryrkjum og gagnvart öldruðum. Þannig er ákveðið að aldraðir skuli búa við 100 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna á mánuði hverjum. Það eru 1.200 þús. kr. á ári. Þetta finnst mér vera mjög jákvætt skref fram á við.

Hvers vegna — og það væri fróðlegt að heyra álit Samfylkingarinnar á þessu — er þetta hins vegar ekki látið taka til greiðslna úr lífeyrissjóðum? Hvers vegna spyr ég að því? Jú, vegna þess að Samfylkingin lofaði því fyrir kosningar. Í kosningaloforðunum var vísað í 100 þús. kr., sem atvinnutekjur og sem lífeyrisgreiðslur, greiðslur úr lífeyrissjóðum. Hvers vegna er ekki orðið við þessum óskum og kröfum af hálfu eldri borgara og af hálfu verkalýðshreyfingarinnar? Vegna þess að þegar gaumgæfðar eru yfirlýsingar og greinargerðir sem koma frá bæði Alþýðusambandi Íslands og BSRB þá er hamrað á þessu að það verði sett frítekjumark varðandi greiðslur úr lífeyrissjóðum. Það er ekki orðið við því í þessu frumvarpi.

Síðan er hitt sem enn á eftir að koma til framkvæmda. Það er hinn margrómaði 25 þús. kall. Hann er ekki kominn til framkvæmda en þá er hugsunin sú að þeir einstaklingar, og þá erum við yfirleitt að horfa til elstu kynslóðarinnar, sem ekki hafa notið og njóta ekki greiðslna úr lífeyrissjóðum, eiga ekki réttindi í lífeyrissjóðum, verði tryggðar 25 þús. kr. Þetta á eftir að koma til framkvæmda. En ef ekki kemur um leið til frítekjumark gagnvart lífeyrissjóðsgreiðslunum þá verður harla lítið úr þessum 25 þús. kr. vegna þess að þær munu sæta skerðingum í almannatryggingum.

Mig langar í þessu efni til að vísa í greinargerð, mjög ítarlega og vandaða, sem kemur frá BSRB þar sem farið er í saumana nákvæmlega á þessu atriði. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þó vitað sé að þetta kostar hið opinbera hærri fjárhæðir vegna minni skerðinga á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins en margar aðrar aðgerðir er þetta réttlætismál sem ætti ekki síst að skoða í samhengi við framkvæmdina við að ellilífeyrisþegum sé tryggt að lágmarki 25 þús. kr. í lífeyrissjóðstekjur á mánuði (nefnt hér á eftir).

Ef skerðingar þessara lífeyrissjóðstekna yrðu eins hugsaðar og annarra tekna frá lífeyrissjóðum væru þessar 25 þús. kr. frekar sýndarveruleiki en veruleg kjarabót. Þá mundi ellilífeyrisþegi sem hefur tekjutryggingu og ekkert hafði úr lífeyrissjóði og fengi þessar 25 þús. kr. á mánuði einungis halda eftir 8.091 kr. af þessu eftir skatta og skerðingar. Eftir stæði minna en einn þriðji af greiðslunni. Til að eitthvað meira yrði úr þessari sérstöku greiðslu mundi frítekjumark eins og öryrkjarnir munu njóta samkvæmt frumvarpinu koma til bóta, en einnig verulega hækkuð skattleysismörk eða tekjur úr lífeyrissjóði yrðu að minnsta kosti að meginhluta skattlagðar eins og fjármagnstekjur með 10% skatti en ekki með núverandi staðgreiðslu upp á 35,72%.“

Hér er vikið að ýmsum málum en grundvallaratriðið er að framlag til einstaklinga sem ekki njóta greiðslna úr lífeyrissjóði ef ekki er sett jafnframt frítekjumark af samsvarandi upphæð verður að harla litlu eftir að skerðingar og skattlagning er komin til sögunnar, eða einungis rúmar 8.000 kr.

Þetta er reyndar nokkuð sem var rætt í kosningabaráttunni. Hugmyndasmiðurinn að þessari útfærslu hefur beðið um orðið í andsvari hér á eftir og verður fróðlegt að hlýða á hvað hann hefur að segja. Þessi hugsun var rædd af fleirum í kosningabaráttunni, þ.e. með hvaða hætti væri hægt að koma til móts við þá einstaklinga sem ekki nytu neinna réttinda í lífeyrissjóði. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heitinn var einn af þeim sem talaði um þetta og sá sem hér stendur gerði það líka.

Síðan var spurningin um útfærslu og ég hygg að höfuðhönnuðurinn sitji hér í salnum og verður fróðlegt að heyra hvað hann segir við þessari gagnrýni, þ.e. að þessar greiðslur verði að harla litlu ef ekki kemur til sögunnar frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.

Ég hefði haldið að fyrsta skrefið sem ríkisstjórnin gæti stigið í þessu efni, gefum okkur það að hún sé ekki reiðubúin að fara upp í 100 þús. kr. frítekjumark í einu vetfangi úr lífeyrissjóðum þó að kröfur verkalýðsfélaga margra gangi miklu hærra, þau vilji fara enn hærra, gefum okkur það að hún hefji þessa vegferð og setji frítekjumark úr lífeyrissjóði í 25 þús. kr. þá væri verið að koma á svipuðu fyrirkomulagi og núna er gert gagnvart öryrkjunum vegna þess að ein breytingin með þessu frumvarpi er 25 þús. kr. frítekjumark gagnvart öryrkjum vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.

(Gripið fram í.) Er ekki gert ráð fyrir frítekjumarki fyrir öryrkja vegna greiðslna úr lífeyrissjóði? (Gripið fram í.) Vegna atvinnutekna? Ekki vegna neinna greiðslna úr lífeyrissjóði? Þá er ég að misskilja þetta. Þeir fá frítekjumark vegna atvinnutekna upp á 25 þús. kr. eða 300 þús. á ári á meðan ellilífeyrisþegar fá … (Gripið fram í.) Það er eins og ég var að segja. Þetta er rétt sem ég var að segja hér áðan og ég bið hv. þm. Pétur H. Blöndal að fara varlega í að leiðrétta mig því það sem ég sagði áðan reyndist vera rétt, þ.e. að öryrkjarnir fá frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóði upp á 25 þús. á mánuði eða 300 þús. kr. á ári en ellilífeyrisþegarnir fá frítekjumark vegna atvinnutekna upp á 100 þús. kr. á mánuði, 1.200 þús. kr. á ári.

Ég spyr því hvers vegna þessi vegferð gagnvart frítekjumarkinu fyrir lífeyrisþega hafi ekki verið hafin með því að stíga fyrsta skref upp í 25 þús. kr. til samræmis við það sem öryrkjar fá. Þetta hefði ég talið að væri gott fyrsta skref þó að ég vildi stíga miklu lengra í þessu efni. En því miður hafa Samfylkingin og ríkisstjórnin ekki treyst sér til að gera þetta þrátt fyrir geysilega vel útbásúnaða kosningaskrá fyrir síðustu kosningar og mikil loforð og fyrirheit í þessum efnum.

Það hefur verið valinn ódýrari kosturinn varðandi báða aðila. Eftir því sem mér skilst þá er hækkun vegna frítekjumarks atvinnutekna 120 millj. kr. en hefði verið, ef sama hefði verið látið ganga til öryrkjanna, um 400 millj. kr. Varðandi lífeyrisgreiðslurnar þá er frítekjumarkið vegna öryrkja úr lífeyrissjóðum 800 millj. kr. en ef það hefði gengið til eldri borgaranna þá væru það 2,6 milljarðar. Það er sem sagt alltaf valinn ódýrasti kosturinn.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta frumvarp. Ég ítreka það að ég styð frumvarpið. Ég styð þær lagabreytingar sem hér er verið að gera. Ég tel þær vera spor í rétta átt. Ég gagnrýni hins vegar mjög ákveðið að tekjulægstu hóparnir skuli skildir eftir. Þeir eru skildir eftir. Ég gagnrýni það líka að digrar yfirlýsingar og loforð Samfylkingarinnar frá því á síðasta kjörtímabili hér í salnum og síðan í aðdraganda síðustu kosninga, að þau loforð sem þá voru gefin nái ekki fram að ganga að fullu leyti varðandi leiðréttingu á greiðslum til öryrkja, hina aldurstengdu örorku. Ég sakna þess einnig mjög ákveðið að eldri borgarar skuli skildir eftir varðandi greiðslur úr lífeyrissjóðum.

Að lokum ítreka ég að sömu atriði eru gagnrýnd mjög harðlega bæði í greinargerðum sem koma frá Félagi eldri borgara og verkalýðshreyfingunni, frá Alþýðusambandi Íslands og einnig frá BSRB en allir þeir aðilar senda inn mjög vandaðar greinargerðir með frumvarpinu.