135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

lyfjalög.

464. mál
[13:53]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að fylgjast með starfi hæstv. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisráðuneytis við að ná niður lyfjaverði hér á landi. Hefur nú þegar nokkur árangur náðst og hluti af þeim breytingum sem hér á að gera er til þess að ná enn frekar niður lyfjaverði.

En ég vil spyrja hæstv. ráðherra aðeins meira út í póstsendingar eins og lagt er til að verði leyfðar, þ.e. póstsendingar út um allt land. Nú er það þannig að það sem átti að vera aukin samkeppni milli lyfjaverslana varð að fákeppni. Það má segja að tvær lyfjakeðjur sjái um lyfsölu um allt land með nokkrum undantekningum þó. Til þess að ná niður kostnaði sjá þessar keðjur um að halda niðri starfsmannakostnaði og hefur það m.a. komið fram í fækkun lyfjafræðinga. Hugsanleg afleiðing þessara breytinga getur verið sú að hugsað sé til enn frekari sparnaðar hjá lyfjakeðjunum og að útsölustöðum verði hreinlega lokað, þ.e. apótekum sem starfrækt eru í dag. Ef möguleiki er á að þjóna ákveðnum svæðum með póstsendingum, gæti það þá ekki leitt til enn frekari sparnaðar?

Hefur málið verið skoðað með þetta í huga? Eins vil ég spyrja að því hvort komið hafi til greina að herða frekar kröfurnar en hitt hvað varðar stöðugildi lyfjafræðinga inn á hverjum útsölustað eða (Forseti hringir.) í hverju apóteki.