135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

upprunaábyrgð á raforku.

271. mál
[15:38]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Frumvarpið miðar að því að innleiða efni tilskipunar nr. 2001/77/EB sem tekin var upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 102/2005.

Um málið hefur verið fjallað nokkuð ítarlega í iðnaðarnefnd og höfum við fengið til okkar allmarga gesti. Við í nefndinni leggjum til fjórar breytingartillögur við frumvarpið sem helst miða að því að lagfæra örlítið orðalag. Engu að síður eru líka örlitlar efnisbreytingar.

Markmið tilskipunarinnar er að stækka markaðshlutdeild endurnýjanlegrar orku á evrópskum raforkumarkaði með því að tryggja aðgang framleiðenda að raforkukerfi innri markaðarins og jafnframt að gefa þeim færi á að auðkenna uppruna orkunnar til hagsbóta fyrir notendur og umhverfið. Aðildarríkin eru hvött til þess að setja sér markmið varðandi hlutfall endurnýjanlegrar orku í heildarorkunotkun undir eftirliti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem jafnframt er ætlað að fylgjast með því hvernig aðildarríkin veita styrki í þágu umhverfisvæns orkuiðnaðar.

Í þessu frumvarpi er Landsneti hf. falið að annast útgáfu upprunaábyrgða sem framleiðendur endurnýjanlegrar raforku geta óskað eftir í þeim tilgangi að selja þær aðilum innan Evrópska efnahagssvæðisins sem sjá sér hag í að styrkja endurnýjanlega orkuframleiðslu.

Um það var örlítið rætt í nefndinni, virðulegi forseti, hvers vegna Landsnet ætti að fara með þetta mál og veita og annast útgáfu þessara upprunaábyrgða. Var því velt upp að mögulega ætti Orkustofnun að sjá um slíka útgáfu. En það varð niðurstaða nefndarinnar að Landsnet væri best til þess fallið að fara með þetta enda hafi Orkustofnun eftirlit með útgáfu þessara ábyrgða og jafnframt þarf Orkustofnun að staðfesta útgáfu þessara leyfa.

Á fundum nefndarinnar kom fram að Orkustofnun hefði við undirbúning virkjana hér á landi lagt til grundvallar sín eigin viðmið við mat á því hvort þær væru sjálfbærar og að samþykkt frumvarpsins mundi ekki hafa þær afleiðingar að slegið yrði af þeim kröfum á nokkurn hátt.

Nefndin bendir á að þær röksemdir sem búa að baki tilskipuninni eigi ekki nema öðrum þræði við um Ísland þar sem íslenska raforkukerfið er ekki samtengt hinum evrópska innri markaði og að auki vegna þeirrar sérstöðu sem Ísland hefur í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Nefndin tekur þó fram í nefndarálitinu að allar að umsagnir sem henni hafa borist voru afar jákvæðar í garð þessa máls.

Við leggjum til nokkrar breytingar eins og ég greindi frá í upphafi máls míns. Veigamesta breytingin er rýmkun á tímamörkum sem um er getið í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er kveðið á um að umsækjandi skuli senda Landsneti skriflega beiðni um útgáfu upprunaábyrgðar á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum í síðasta lagi 30 dögum frá lokum síðasta mánaðar þess tímabils sem upprunaábyrgð skal ná yfir. Helstu athugasemdirnar sem fram komu við frumvarpið voru við þetta ákvæði og var það ósk ýmissa gesta og umsagnaraðila að tímabilið yrði lengt og það allt upp í eitt til tvö ár. Niðurstaða nefndarinnar var að taka ekki undir ýtrustu óskir í umsögnum hvað varðar lengd tímamarkanna og er lagt til í breytingartillögu að í stað 30 daga frests verði gefinn 90 daga frestur. (Gripið fram í: ... lágmark.) Töldum við að þarna væri gætt ákveðins meðalhófs í þeim efnum. En það skal líka tekið fram, eins og fram kemur í nefndarálitinu, að við teljum mikilvægt að fylgjast vel með þessu atriði og þá fylgjast líka með því í framkvæmdinni og við teljum mikilvægt að þetta verði endurskoðað í ljósi reynslunnar í framtíðinni.

Að þessu sögðu, virðulegi forseti, leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 734.

Undir þetta álit ritar sú sem hér stendur, sem er formaður nefndarinnar og framsögumaður, hv. þingmenn Guðni Ágústsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Grétar Mar Jónsson, Ólöf Nordal, Ellert B. Schram, Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Kjartan Ólafsson. Auk þess ritar undir nefndarálitið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon með fyrirvara.