135. löggjafarþing — 80. fundur,  13. mars 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[17:08]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði nú ekki gert mér grein fyrir því að hæstv. ráðherra byggi yfir hæfileikum akrópatsins en þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt hugarflug sem hér er farið á.

Ég tel að sjálfsögðu að hlutafélög séu góðra gjalda verð þar sem þau eiga við og þetta er gott form. Það hefur hins vegar viljað brenna við í umræðunni um markaðsvæðingu og einkavæðingu innan hins opinbera að menn segi að þetta sé svo þekkt form, þetta sé svo gott form. Já, vissulega, þar sem það á við. Það á bara ekki við inni á spítalaganginum. Það á ekki við almennt í opinberri stjórnsýslu. Það á ekki við þar sem við viljum tryggja fullt gagnsæi og almennar stjórnsýslureglur. Það er þetta sem ég er að kalla eftir og það er í þessu samhengi sem við horfum til öryggisþátta á borð við slökkviliðið. Ég fullvissa hæstv. ráðherra um það, þótt ég játi á mig að kunna ekki skil á öllum þeim þáttum, ég á einfaldlega eftir að kynna mér þá betur og ég mun ég gera það, að eftir því sem ég hef fregnað eru stéttarfélögin, og þar á meðal slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli, ekki sannfærð um að þær breytingar sem liggja í loftinu, því að þær eru ófrágengnar enn þá, séu til góðs. Að sjálfsögðu þurfum við að gaumgæfa þetta rækilega þegar frumvarpið fer í gegnum meðferð á þinginu. Ég ráðlegg mönnum að fara hægt í þær sakir, það liggur ekkert á, förum hægt í sakirnar. Ég er ekki að segja að ekki þurfi að efna til skipulagsbreytinga á Keflavíkurflugvelli, ég hef aldrei lagst gegn því, en ég hef lagst gegn því að vinna þau mál á handarbakinu.