135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

5. fsp.

[15:40]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er eins og hv. þingmaður hafi ekki fylgst með í íslensku samfélagi þegar hann er að bera saman stöðuna um mitt síðasta ár og nú. Það er allt önnur staða uppi núna (Gripið fram í.) og þó að maður hefði treyst sér til að koma með aðgerðir, til dæmis til að bæta stöðu fyrstu íbúðar kaupenda um áramótin þá er staðan bara önnur núna. Hv. þingmaður getur ekki haldið því fram að það sé ekkert verið að gera í húsnæðismálum þegar þegar hafa verið teknar ákvarðanir um að hækka húsaleigubætur og um sérstakar húsaleigubætur og að verja til þess 730 millj. kr. Það hefur verið tekin ákvörðun um að fella niður stimpilgjöld hjá fyrstu íbúðar kaupendum … (BJJ: Hvenær?) Það mun koma í ljós mjög fljótlega og það hefur verið tekin ákvörðun um að fjölga leiguíbúðum um hvorki meira né minna 3.000 á næstu fjórum árum. Það er gert ráð fyrir niðurgreiðslu til fjögur hundruð íbúða á leigumarkaðnum núna en frá næstu áramótum munu bætast við 750 á hverju ári, næstu fjögur árin. Það er ekki hægt að kalla það að „ekkert sé verið að gera“, hv. þingmaður.

Við munum við fyrsta tækifæri koma með aðgerðir sem bæta stöðu fyrstu íbúðar kaupenda.