135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[18:37]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram um skýrslu um starfsemi Breiðavíkurheimilisins á tímabilinu 1952–1979. Í upphafi máls míns vil ég rifja í örfáum orðum upp aðdraganda þess að skýrslan sem hér er til umræðu var unnin og farið í það mikla starf sem að baki liggur.

Þegar ég fór með embætti félagsmálaráðherra fyrir rúmlega ári og umræðan um Breiðavíkurheimilið stóð sem hæst lét ég skoða hvernig farið var með sambærileg mál í Noregi fyrir allnokkrum árum. Eftir þá skoðun lagði ég til í tíð þáverandi ríkisstjórnar að farið yrði í það verkefni að rannsaka starfsemina í Breiðavík. Í meðförum ríkisstjórnarinnar þróaðist málið á þann veg að ákveðið var að ráðast í þetta starf og að það yrði á forræði hæstv. forsætisráðherra. Alþingi samþykkti lög um málið og framhaldið þekkja allir. Nú liggur þessi skýrsla fyrir.

Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir skýrsluna. Ég þakka nefndinni sem vann hana fyrir þá miklu vinnu sem að baki liggur. Það er augljóst að verkefnið var að mörgu leyti ekki einfalt og þarna er um viðkvæm mál að ræða. Ég vil líka nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að þessu starfi og áttu samskipti við nefndina sem vann skýrsluna fyrir framlag þeirra. Loks vil ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir það hvernig hann hefur haldið utan um þetta mál, sem ég tel honum til sóma. Hér var farin skynsamleg leið að mínu mati og vel að verki staðið og skýrslan ber vitni um það.

Ég vil, virðulegi forseti, árétta að fara verður varlega í að fella dóma yfir einstaklingum sem komu að starfseminni á Breiðavík á sínum tíma með algildum ályktunum. Rannsóknarnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að Breiðavíkurheimilið hafi á tilteknum tímabilum verið ungum vistmönnum það skjól sem því bar lögum samkvæmt og starfsmenn þar hafi veitt skjólstæðingum þá umönnun sem þeim bar. Á öðrum tímabilum hafi síður eða ekki verið um það að ræða. Um þetta er fjallað í skýrslunni.

Ég veit að hin mikla umræða sem fram hefur farið um málið hefur reynst mörgum þeim sem málinu tengjast erfið. Málinu fylgja miklar tilfinningar og umræðan hefur án efa ýft upp hjartasár hjá ýmsum. Það hefur komið fram að sumir þeirra sem komu að starfseminni í Breiðavík telji að felldir hafi verið algildir dómar yfir þeim sem unnu þar. Slíkt ber að sjálfsögðu að varast og stilla verður umræðunni í það hóf að saklaust fólk verði ekki fyrir óþægindum eða skaða. Ég held því miður að ekki hafi verið farið nógu gætilega að því leyti.

Í umfjöllun um löngu liðinn tíma hlýtur að verða að taka mið af uppeldisaðferðum sem viðgengust og tíðkuðust á þeim tíma og jafnframt af því umhverfi sem mótað hafði verið í stjórnsýslunni, þar á meðal af lögum og reglum sem giltu um barnaverndarmálefni. Við vitum öll að á þessum málum hefur sem betur fer orðið mikil breyting á síðari tímum. Nefndin sem vann skýrsluna virðist ekki hafa fallið í þá gryfju að dæma meðferðina í Breiðavík eftir mælikvörðum nútímans heldur hafði hún til viðmiðunar lög og reglur sem giltu á þeim tíma sem um ræðir. Nefndin lagði mikið upp úr því að skilgreina viðeigandi hugtök sem fjallað er um í skýrslunni og er það vel. Ég vil hrósa nefndinni fyrir það.

Margt af því sem kemur fram í skýrslunni finnst okkur sérkennilegt og úr takti við það sem gildir í dag. Í raun má segja að þeir sem voru vistaðir á Breiðavíkurheimilinu hafi verið þar í nauðungarvistun og því hafi ábyrgð hins opinbera verið mikil. Af lestri skýrslunnar má ljóst vera að starfsemi Breiðavíkurheimilisins var ekki í samræmi við ákvæði laga á þeim tíma. Stjórnvöld virtust ekki gera sér grein fyrir því, þrátt fyrir að skýrslur og aðrar upplýsingar þar um og hafi legið fyrir. Það á bæði við um ríkisvaldið og sveitarfélögin. Það má lesa úr skýrslunni að eftirliti hafi verið ábótavant og lögbundnum skyldum hafi ekki verið framfylgt. Má þar m.a. nefna menntun drengjanna og hæfi starfsmanna heimilisins.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að rekja í smáatriðum það sem fram kemur í þessari skýrslu. Það hefur verið rætt og liggur fyrir. Það er alltaf dapurlegt að vita af einstaklingum sem hafa af einhverjum völdum farið illa út úr lífinu og að lífshlaup þeirra hafi mótast af völdum einhverra aðila eða vegna tiltekinna aðstæðna á þann hátt að viðkomandi hafi ekki fengið notið möguleika lífsins.

Í tilfelli margra þeirra sem dvöldust á Breiðavík má í þessu sambandi nefna menntunina. Það er ljóst að þeir fengu ekki notið menntunar á við jafnaldra sína annars staðar á landinu. Slíkt hefur að sjálfsögðu sín áhrif á lífshlaup viðkomandi einstaklinga. Þá hefur langvarandi fjarvera ungra drengja frá foreldrum og fjölskyldu haft sín áhrif á mótun þeirra, svo ekki sé talað um það ef aðbúnaður og aðstaða á vistheimilinu hafi verið með þeim hætti sem lýsingar eru um í skýrslunni.

Allt of mörg dæmi eru til um einstaklinga sem þannig hafa farið á mis við lífsins gæði og velgengni. Einnig má segja að allt of mörg dæmi séu um einstaklinga sem hafa lifað erfitt æviskeið af völdum einhvers eða einhverra sem hafa haft afgerandi áhrif að því leyti. Að mínu viti er ljóst að sú skýrsla sem hér er til umræðu fjallar um slík mál og það er dapurlegt. Það er hins vegar ástæða til að árétta að varast skal að fella algildan dóm yfir því fólki sem kom að starfsemi heimilisins á sínum tíma. Margt af því fólki lagði sig fram um að vinna eins vel að hagsmunum drengjanna sem dvöldu á heimilinu og kostur var við erfiðar aðstæður.

Það hlýtur, virðulegi forseti, að þurfa að leita allra leiða til að koma á einhvern hátt til móts við þá einstaklinga sem um er að ræða og hlutu skaða af vistinni á Breiðavík, þótt seint sé. Nefndin sem vann þessa skýrslu fjallar í niðurstöðum sínum um möguleika stjórnvalda til að bregðast við því sem fram kemur í skýrslunni og niðurstöðum hennar og nefndir eru nokkrir möguleikar í því sambandi.

Hæstv. forseti. Málið sem hér er rætt er um margt dapurlegt og ber vitni um aðstæður og starfshætti liðins tíma. Ég ber þá von í brjósti að allir þeir sem á einhvern hátt hlutu skaða af vistinni á Breiðavík nái að vinna sig út úr sínum málum og ríkisvaldið á að sjálfsögðu að leggja sitt af mörkum í þeim tilgangi. Sömuleiðis ítreka ég að varast ber að dæma alla þá sem að málinu komu á sínum tíma með alhæfingum.

Hæstv. forsætisráðherra tilkynnti næstu skref í þessum málum í framsögu sinni. Ég fagna því sem fram undan er. Um leið og ég ítreka þakkir til nefndarinnar fyrir hennar mikla og góða starf þá óska ég henni velgengni í áframhaldandi störfum en eins og fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra mun nefndin væntanlega taka að sér frekari störf á þessu sviði.