135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:46]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það reynir mjög á löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum um þessar mundir. Almenningur finnur fyrir sífellt meira óöryggi. Það mæla kannanir. Fólk óttast jafnvel um að vera ekki óhult á ferli í miðborg Reykjavíkur. Fleiri og fleiri kunna sögur af undarlegu atferli, af eiturlyfjasölu í næsta nágrenni. Við þessar aðstæður skiptir miklu máli að tryggja öfluga löggæslu, styðja við hana í hvívetna og ef eitthvað er, auka sýnilega löggæslu og möguleika löggæslunnar til að taka á þessum erfiðu aðstæðum.

Mér þykir mestu skipta að hrófla ekki við því sem vel er gert heldur þvert á móti styðja við það. Staðreyndin er að starfsemin á vegum lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum hefur verið gríðarlega árangursrík og skilað miklum árangri. Ljóst er að sú starfsemi er til þess fallin að ná þeim markmiðum sem við hljótum öll að vilja setja löggæslu í landinu við þessar aðstæður. Maður hlýtur að kalla eftir faglegum rökum fyrir ákvörðunum af þessum toga.

Mér finnst sú röksemd að fella beri það sem tilheyrir fjármálaráðherra undir hann og síðan löggæslu undir dómsmálaráðuneytið ekki sérlega sterk. Slíkum árangri má ná án þess að brjóta embættið upp. Það er með öðrum orðum hægt að ná þeim árangri með viðurhlutaminni aðferðum. Við hljótum öll að vilja staldra við og horfa til þess hvað við getum raunverulega gert til að styrkja löggæslu í landinu, sem þarf nú sem aldrei fyrr á stuðningi Alþingis að halda. Það er þess vegna mjög mikilvægt að fara með gát þegar í hlut (Forseti hringir.) eiga embætti sem hafa sýnt gríðarlegan árangur í starfi.