135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:17]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil í upphafi míns máls hvetja til þess að horft verði fram á veginn og ekki bara í baksýnisspegilinn þegar um Sundabraut er að ræða því þetta er vissulega allt saman endurtekið efni sem hér er flutt við þessa umræðu, held ég. Það er heldur ekki hægt að fjalla um Sundabraut hér öðruvísi en að líta til umferðarmálanna og umferðaröngþveitisins sem ríkir á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngumálin og mengun af völdum umferðar eru orðin mesta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu. Það ásamt þeirri staðreynd að við verðum að draga úr útblæstri frá samgöngum vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar kallar á nýja nálgun í þessum efnum og við í vinstri grænum leggjum áherslu á að almenningssamgöngur verði efldar og að umferðaröryggi gangandi og hjólandi fólks verði tryggt.

Forgangsakreinar fyrir almenningssamgöngur, hjólreiðabrautir, endurgreiðsla á vaski af almenningsvögnum og lækkun olíugjalds, þetta ásamt athugun á léttlestakerfi er það sem við í vinstri grænum höfum lagt til málanna bara á þessu þingi til málanna. Og ég hvet til þess að þegar verið er að ræða um umferðarmannvirki sé ekki eingöngu horft einagrað á kostnaðinn heldur líka á umhverfislegan ávinning af hverju því verkefni sem ráðist er í.

Ég hlýt að viðurkenna að það læðast að manni nokkrar efasemdir um hvert stefni í þessum efnum. Á sama tíma og borgaryfirvöld tala um léttlestakerfi eru á dagskrá borgarstjórnarfundar núna mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut ásamt Sundabrautinni. Þarna er verið að tala um tugi ef ekki hundruð milljarða í fjárfestingu. Ég hvet til þess að það verði ekki litið — eins og ég hef áður gert og þingmenn — að það verði ekki aðeins litið til ódýrustu leiðarinnar þegar til Sundabrautarinnar kemur heldur til þeirra viðkvæmu svæða sem þessi braut mun liggja um (Forseti hringir.) og hlustað á sjónarmið íbúa sem eiga eftir að búa við mannvirkið vonandi í yfir hundrað ár.