135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[15:28]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þingflokkur eða fulltrúi þingflokks Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd stendur ekki að því nefndaráliti meiri hlutans sem hér hefur verið talað fyrir og ég vil fara nokkrum orðum um ástæður þess.

Það er margt í þessu frumvarpi og þessu máli sem við hefðum talið æskilegt að betri tími gæfist til að gaumgæfa, það lýtur í raun og veru bæði að frumvarpinu sjálfu og þeim álitamálum sem þar er glímt við og það lýtur einnig að vissum þáttum í breytingartillögum meiri hlutans. Við munum því óska eftir því, virðulegi forseti, að málið gangi á ný til nefndar milli 2. og 3. umr.

Ýmis atriði í þessu eru vandasöm og eðlilegt er að menn gaumgæfi vandlega hvernig vert sé að fara með þau í okkar skattarétti og orðaskiptin sem urðu hér áðan í andsvari eru angi af því máli. Það er vissulega skiljanlegt viðhorf þó að það fari kannski ekki hátt í málflutningi um þetta mál að menn vilji reyna að tryggja að heimahöfn fyrirtækja sem eru íslensk að uppruna eða hafa með höndum umsvif sem tengjast landinu sé hér. Veruleikinn er hins vegar sá að allmörg eignarhaldsfélög hafa verið stofnuð, sérstaklega í þeim tveimur löndum sem þegar hafa verið nefnd, til að geyma þar uppsafnaðan hagnað vegna viðskipta lögaðila með hlutabréf. Spurningin er þá hvað á að gera í þeim efnum. Á að horfast í augu við það og segja eins og hér var gert, ja, þetta er ekkert að skila sér, þetta eru ekki tekjur í hendi, við skulum slá striki yfir það sem liðið er og fara leið þeirra sem bjóða best í þessum efnum, fara leið lægsta samnefnarans, sem er þá í þessu tilviki Noregur og Holland?

Það sem þá gerist er auðvitað vel þekkt í alþjóðlegum umræðum um skattamál. Það er skattasamkeppnin niður á við þar sem menn elta þann sem best býður í hverju tilviki og afleiðingarnar eru ósköp einfaldar, samkeppnin virkar öll í þá átt að draga úr sköttum á hagnað. Sérstaklega hefur þetta birst í viðleitni til að keppa um hylli stóreignamanna og gróðafyrirtækja og eignarhaldsfyrirtækja sem eru ákaflega kvik í nútímasamfélagi. Þar sem rætt er um þessi mál af yfirvegun og menn eru ekki of haldnir af pólitískum kreddum heitir þetta fyrirbæri t.d. upp á skandinavískar tungur „skadelig skattekonkurrence“ eða skaðleg skattasamkeppni og hefur verið mikið til umræðu t.d. í norrænu samstarfi á þessu sviði. Skattamálaráðherrar Norðurlandanna þekkja þetta vel og þeir sem setið hafa í efnahags- og skattanefndum í Norðurlandaráði einnig.

Þetta viðfangsefni er líka vel þekkt meðal Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD. Þar hefur verið unnið mikið starf sem allt hefur miðað að því að koma böndum á slíka skaðlega niðurbrjótandi skattasamkeppni og reyna að tryggja einhverjar viðmiðunarreglur þannig að menn þurfi ekki endalaust að elta þær skattasmugur þar sem best er boðið hverju sinni með þeim afleiðingum að lokum að það verða þá því sem næst engir skattar lagðir á. Vegna þess að einhver verður alltaf til þess að bjóða betur, aðeins lægri prósentur, aðeins rýmri reglur, aðeins meiri möguleika á að koma sér hjá skattinum, geyma gróðann o.s.frv. Þetta mál er í svona samhengi, því verður ekkert neitað.

Það leita ýmsar efasemdir á okkur um að rétt sé að fara í málið eins og hér er lagt til þó að við höfum alveg skilning á því sem á bak við liggur og ég geri ekkert lítið úr því en manni finnst það dálítið ankannalegt að sjá móðurfélög eða eignarhaldsfélög mikilvægra innlendra fyrirtækja lauma sér úr landi með þessum hætti til þess að geyma væntanlegan söluhagnað hlutabréfa í Hollandi eða Noregi. En þá verður líka að skoða, ef menn fara inn á þessa braut, hvaða aðrar takmarkandi reglur gilda í skattumhverfi fyrirtækjanna yfirleitt. Það er nefnilega ekki þannig að það sé sjálfgefið að gera breytingar í þessa átt án þess að hrófla við neinu öðru í staðinn. Og ég lýsi líka eftir því og tel ástæðu til að nefndin fari rækilega yfir það, ef menn ætla t.d. í aðalatriðum að ljósrita reglur Norðmanna í þessum efnum, þarf þá ekki líka að skoða ýmsar takmarkandi reglur sem Norðmenn hafa sett og ekki eru til staðar gagnvart skattlagningu fyrirtækja hér á landi þannig að það sé að minnsta kosti ekki verið að undirbjóða og gera enn betur en ástæða er til?

Ég held að það sé líka ástæða til að hafa í huga að ríkisstjórnin er nú svo rausnarleg við gróðafyrirtækin í landinu að hún dreif sig í að lækka prósentuna enn, niður í 15, í tengslum við ákvarðanir sem hengdar voru á kjarasamninga. Ég veit að það eru meira að segja menn innan stjórnarherbúðanna, a.m.k. í frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins, sem vilja fara enn þá lengra niður. (ÓN: ... hefði verið betra að lækka meira.) Ég veit ekki hvar sumir þessara manna yrðu hamingjusamir með að enda, kannski í pilsnerprósentu? Ég get vel ímyndað mér að æstustu frjálshyggjumönnum í Sjálfstæðisflokknum mundi líða vel í pilsnerprósentu. (Gripið fram í.) Svona 2,25%. Það væri kannski ekki ósanngjarnt að ætlast til þess að gróðaöflin legðu það af mörkum til samneyslunnar. (Gripið fram í.) Auðvitað er hér komið skattumhverfi og reyndar fyrir löngu sem er með því allra hagstæðasta sem þekkist innan efnahagslega þróaðra landa, það er nú veruleikinn. Og þess þá heldur er eðlilegt að það vakni spurningar um hvort þörf sé á að gera enn betur eins og á að fara að gera í þessu tilviki.

Ég endurtek hér og mæli fyrir þeim efasemdum sem við höfum í þessum efnum. Við skorumst ekkert undan því að þessi mál séu skoðuð en að það sé þá gert vandlega og farið rækilega yfir það hvort menn séu hér endilega á réttri slóð. Ég er ekki viss um að samúð þjóðarinnar sé um þessar mundir alveg sérstaklega með þeim sem í gegnum þetta komist kannski hjá því að borga nokkurn tíma nokkra skatta af mörg hundruð milljarða uppsöfnuðum söluhagnaði bréfa sem menn hafa frestað skattlagningu á og vissulega haft lagaleg úrræði til þess, það er alveg rétt. Ég tók þátt í því á sínum tíma að standa að setningu þeirra reglna, ef ég man rétt, ég var þá í efnahags- og viðskiptanefnd sem hún hefur nú trúlega heitið þá, þannig að það er svo sem ekkert ólöglegt við það. Síðan hafa menn fundið þessa smugu, að lauma eignarhaldinu úr landi í skúffufélög í Hollandi eða Noregi. En ég held að menn eigi að fara mjög vandlega yfir það hvort það sé óumflýjanlegt og eina leiðin og réttlætanlegt yfir höfuð að slá bara striki yfir það allt saman og gefa upp allar hugmyndir um að þessi uppsafnaði hagnaður komi nokkurn tíma til skattlagningar. Nú er hann að sjálfsögðu ekki endilega allur raunverulegur, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á áðan, og þessir hlutir sveiflast upp og niður. En hann hefur komið til, hann hefur verið bókfærður. Þetta eru ekki einhverjar ímyndaðar tölur heldur raunverulegar tölur úr bókhaldi fyrirtækja sem hér eru birtar upplýsingar um í fylgiskjölum og eru af þessum fjárhæðum eins og áður hefur fram komið, mörg hundruð milljarðar króna í uppsafnaðan söluhagnað lögaðila af bréfum í öðrum lögaðilum.

Það er síðan eitt annað lítils háttar mál í þessu sem ég vil aðeins nefna hér, virðulegi forseti, þó að það sé kannski ekki stórt í hinu samhenginu og það eru ákvæðin sem lúta að skattaumsýslu stórfyrirtækja. Það kann vel að vera að það sé tímabært og praktískt að skipa skattlagningu stærstu aðilanna með öðrum hætti en almennra atvinnurekenda eða almenns atvinnurekstrar eða lögaðila almennt og þá minni fyrirtækja og meðalstórra. En það vekur athygli að í tengslum við þá breytingu virðist eiga að færa verkefni frá skattumdæmum landsbyggðarinnar til Reykjavíkur. Það renna öll vötn í þessa átt. Alltaf. Við hvert einasta tækifæri af þessum toga virðist einhvers staðar einhver furðuleg ósýnileg hönd stýra málum í þá veru að verkefnin renni til Reykjavíkur í tollaendurskipulagningu, guð má vita hvað það er, og núna er hér það dæmi, sem ýmsir kunna að segja að sé ekki stórt, á ferðinni að skattaumsýsla og skattumdæmi í raun og veru allra stórfyrirtækjanna, í gegnum þessa nýju skilgreiningu á skattaumsýslu stórfyrirtækja, færist til Reykjavíkurumdæmis. Hér eru merkar prósentur reiddar fram um að það séu 249 lögaðilar vegna rekstrar ársins 2006 sem mynda skattaandlag á árinu 2007 og þar af séu 211 fyrirtæki í Reykjavík. Og af heildarfjölda stórfyrirtækja séu 174 eða 70% af heild með skattalegt heimilisfesti í Reykjavík þótt innan við helmingur sé skráður þar.

Þetta eru svo sem ekkert óskaplega skökk hlutföll ef núverandi íbúasamsetning í landinu er skoðuð þar sem íbúafjöldi þessa svæðis er kominn yfir 60%. Í raun og veru er dreifingin kannski minna skökk en maður hefði getað átt von á sem þýðir að það er þó slatti fyrirtækja sem tilheyrir þessum stóra flokki sem tilheyrir öðrum skattumdæmum og ég sé nú ekki af hverju þau mega ekki bara gera sín mál upp þar. Af hverju þarf að færa það verkefni til Reykjavíkur? Halda menn að skattstofan á Akureyri t.d. ráði ekki við að sinna málefnum stærri fyrirtækja? Hvaða rök eru fyrir því að þetta þurfi endilega að færast hingað? Það skiptir kannski ekki miklu máli, ég er ekki að segja að það fylgi því mörg ársverk að annast sérstaklega um málefni þessara stóru fyrirtækja í skattstofum umdæmanna en þarna eru þó stórir rekstraraðilar á ferð með mikla veltu eðli málsins samkvæmt og kannski dálítill hluti af umfangi skattstofanna sem í hlut eiga sem tengist þá skattlagningu lögaðila sem að þeim snýr.

Ég hefði gjarnan vilja fá aðeins meiri upplýsingar um það og fá að vita aðeins meira um það annars vegar hvaða rök standa til þess að gera þessa breytingu og hvaða bein efnisleg áhrif hún hefur. Með alveg sama hætti og mér finnst fullgilt að krefjast meiri upplýsinga um nákvæmlega hvaða uppsafnaður, geymdur eða falinn söluhagnaður er á bak við þær tölur sem við erum að ræða hér um. Jafnvel þó að eitthvað af honum hafi gufað upp í stormviðrum undanfarinna mánaða vegna gengislækkana o.s.frv. þá er engu að síður rétt að Alþingi viti hvað það er að gera nákvæmlega í þessum efnum og hvort það sé mögulega að færa hér ýmsum aðilum stórgjafir. Hugmyndin um að menn geti frestað skattlagningu með því að endurfjárfesta var auðvitað ekki hugsuð af velvild í garð þess að menn borgi ekki skattana sína. Það er mikill misskilningur ef einhver hefur haldið það. Það var til þess að það væri frekar hvetjandi en hitt að menn endurfjárfestu, að menn létu peningana vinna í þágu samfélagsins — ekki bara sjálfra sín — að þessu leytinu til og þá gætu menn sagt sem svo: Það kann að vera eðlilegt og hagkvæmt fyrir fyrirtækin að hafa visst svigrúm í þeim efnum og þurfa ekki að taka skyndiákvarðanir í beinu framhaldi af því að söluhagnaður hefur myndast heldur geti menn geymt hann og gert nýjar áætlanir og tekið síðan yfirvegaðar ákvarðanir um endurfjárfestingar ef þeir vilja binda fjármunina áfram í atvinnurekstrinum innan hóflegra tímamarka í staðinn fyrir að leysa til sín hagnaðinn.

Þetta er það sem mér kemur í hug að taka sérstaklega upp hérna í tengslum við þetta frumvarp, virðulegi forseti, fyrir hönd okkar þingmanna Vinstri grænna. Eins og ég sagði munum við óska eftir að málið fari aftur til efnahags- og viðskiptanefndar, við stöndum ekki að því að afgreiða það eða styðja það að svo stöddu.