135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:06]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Hér hefur farið fram afskaplega góð umræða um þetta frumvarp og skattamál yfirleitt. Ég er mjög ánægður með það og einnig með að málinu skuli aftur vísað til efnahags- og skattanefndar þar sem við getum fjallað enn frekar um það. Ég tel að þetta sé mjög gott og merkilegt merki til atvinnulífsins, sem á í ákveðnum þrengingum sem stendur, um að ríkisvaldið standi með því.

Varðandi skattasamkeppni, sem nokkuð hefur verið rætt um og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði að umtalsefni, lít ég þannig á að skattasamkeppni milli þjóða sé vörn borgarans gegn skattlagningu ríkisvaldsins. Áður en skattasamkeppnin kom til voru borgarar gersamlega ofurseldir skattagleði vissra stjórnmálamanna sem vildu skattleggja allt undir drep, eins og við höfum séð mjög slæm dæmi um í Skandinavíu, þar sem fólk var farið að flýja land unnvörpum vegna þess hve skattarnir voru orðnir miklir og borgarinn sem eftir sat var óvarinn fyrir sterku ríkisvaldi. Skattasamkeppni milli þjóða er björg þessum borgurum.

Varðandi það sem menn segja um að fyrirtækin eigi að vinna fyrir þjóðfélagið og borga skatta þá náttúrlega vinna fyrirtæki fyrir þjóðfélagið á margan annan átt en að borga skatta. Þau halda uppi atvinnu, þau borga fólki laun og þau sjá um atvinnulífið, sem allt annað nærist á, velferðarkerfið þar með talið. Starfsmennirnir borga skatt af launum sínum o.s.frv., borga iðgjöld í lífeyrissjóði og allt stendur þetta undir velferðarkerfinu og afkomu allra landsmanna. Það er því mjög mikilvægt að fyrirtækin starfi jafnvel þótt þau sleppi við að borga skatta að einhverju leyti.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem því miður er farinn, gat um að hann sæi ekki fyrir sér að fyrirtækin færu öll. Auðvitað fara þau ekki öll. En það eru nokkur fyrirtæki sem eru alþjóðleg, mjög stór alþjóðleg fyrirtæki, með höfuðstöðvar á Íslandi. Maður spyr sig: Af hverju ættu bankarnir þrír að vera með höfuðstöðvar á Íslandi þegar meginhluti starfseminnar er í útlöndum? Við þurfum að gæta að því að þessi alþjóðlegu fyrirtæki sem staðsett eru á Íslandi fari ekki úr landi. Helst þurfum við að búa til þannig umhverfi að erlend fyrirtæki komi hingað vegna þess að hér sé umhverfið betra en í öðrum löndum. Við þurfum að bjóða gott betur en önnur lönd vegna þess hve markaðurinn er lítill og vegna fjarlægðar frá öðrum löndum. Við þurfum að bjóða fyrirtækjunum enn betra umhverfi til að koma hingað.

Svo langar mig, herra forseti, að geta um skattahækkanir og -lækkanir. Skattar á hagnað fyrirtækja hafa verið lækkaðir úr 45% niður í 18% og stendur til að lækka þá niður í 15%. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gat um að kannski mætti lækka þá enn frekar ef það mundi gleðja mig. Það er rétt hjá honum. Ég mundi taka undir það að lækka þá enn frekar og með því laða til landsins stærri fyrirtæki, erlend fyrirtæki. En það er svo merkilegt að þrátt fyrir að skattprósentan hafi verið lækkuð hafa skatttekjur hækkað, skatttekjur ríkissjóðs af þessum sömu fyrirtækjum hafa hækkað. Þá spyr maður sig, herra forseti: Er þetta skattalækkun eða skattahækkun? Er lækkun úr 45% niður í 18% skattalækkun eða eru stórauknar tekjur ríkissjóðs af þessum skatti auknar álögur á fyrirtækin? Er það skattahækkun? Um það geta menn deilt. Í kjölfarið hefur það gerst að skattstofninn, þ.e. hagnaður fyrirtækja, hefur stórhækkað. Það er ekki veigaminnsta markmiðið með þessum breytingum öllum.

Það sama hefur gerst með laun almennings. Skattar hafa verið lækkaðir en samt hafa skatttekjur ríkissjóðs af tekjusköttum einstaklinga stórhækkað. Launin hafa hækkað sem hvergi annars staðar. Það skyldi þó ekki vera ákveðið samhengi þarna á milli? Þegar byrðunum er létt af klárnum fer hann kannski að spretta úr spori. Skattalækkun getur komið fram sem hærri tekjur ríkissjóðs. Ef maður skoðar skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu þá hafa þær ekki lækkað neitt. Þær stórhækka og sumir segja að það sé ámælisvert fyrir minn flokk að hafa staðið að því að skattálögur á landslýð hafi hækkað sem hlutfall af landsframleiðslu þrátt fyrir allar skattalækkanir. Þetta er vegna þess að kakan hefur stækkað svo mikið að tekjur ríkissjóðs hafa aukist. (KHG: Þá er allt jákvætt.) Ég er ekki alveg sammála því að það sé jákvætt, herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað sjá að borgarinn héldi dálitlu meira eftir af tekjum sínum og fyrirtækin í landinu.

Svo er það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um, að menn væru að sleppa þessum löxum úr netinu. Nú er það svo að maður sem sér lax í hyl kann að eigna sér hann og segja: Heyrðu, þetta er laglegur lax, ég ætla bara að færa hann mér til eignar. Svo bara stingur laxinn af, hann lætur ekki veiða sig. Þá er það engin eign fyrir viðkomandi veiðimann eða áhorfanda. Svipað er með söluhagnað af hlutabréfum. Það er skattlagning á hagnað framtíðarinnar. Þessi fyrirtæki munu borga skatt þegar hagnaðurinn verður til. Ef þau gera það ekki þýðir það gjaldþrot hjá viðkomandi fyrirtæki. Þessi hagnaður framtíðarinnar sem felst í háu hlutabréfaverði verður greiddur. Það verður greiddur skattur af honum til þjóðfélagsins þegar viðkomandi fyrirtæki skilar þeim hagnaði sem menn búast við og borga fyrir með hærra verði. Þetta er heimspekin á bak við það hjá Hollendingum og Norðmönnum að skattleggja ekki söluhagnað hlutabréfa.

Ég vil leiðrétta það sem menn hafa sagt, að þessum skatti sé frestað. Fyrirtæki sem mynda hagnað í Hollandi mynda hagnaðinn. Hann verður til, hann er færður til bókar og enginn skattur. Honum er ekki frestað neitt, hann er þar og heldur áfram að vinna. Hann er farinn frá Íslandi, það er vandamálið. Og markmið þessa frumvarps er að reyna að halda þessum fyrirtækjum inni í landinu, halda þessari eign í landinu þannig að hún vinni fyrir íslenskt atvinnulíf en ekki erlent, hollenskt eða hvar það nú er.

Þau fyrirtæki sem hafa notað sér að fresta skattlagningu kunna að hafa stofnað dótturfyrirtæki og þau fyrirtæki starfa við hliðina á móðurfyrirtækinu og þar er hagnaðurinn geymdur um alla framtíð. Hann starfar áfram í þjóðfélaginu og af honum er ekki borgaður skattur, ekki frekar en af laxinum sem slapp. Hann bara slapp. Með þessu frumvarpi er horfst í augu við að þessi hagnaður er ekki raunverulegur skattstofn. Það verður að horfast í augu við það og gera íslenskt skattumhverfi það lipurt og gott að erlend fyrirtæki, en sérstaklega alþjóðleg fyrirtæki sem eru starfandi hér á landi, þá nefni ég bankana þrjá og fleiri útrásarfyrirtæki, haldist á landinu. Þau eru alþjóðleg og eru ekki íslensk lengur. Við ætlum að reyna að halda þeim hér á landi og helst að lokka önnur fyrirtæki til landsins. Það er markmiðið með þessu frumvarpi.

Verðmæti hlutabréfa kemur inn í þetta dæmi líka. Við erum að tala um skattlagningu á verðmæti hlutabréfaverðs. Nú hafa þau lækkað allverulega þannig að hagnaður síðustu tveggja ára er farinn. Hann er horfinn og kannski má segja að sem betur fer sé ekki búið að skattleggja hann. Þá væri mikið meira um gjaldþrot heldur en þó er. Þessi hagnaður er hreinlega farinn. Nefnt var að sumir bankar og sparisjóðir mundu sýna meira eigið fé en ég er hræddur um að hagnaður sumra þeirra, sem eiga t.d. í Exista, hafi minnkað allverulega á síðustu dögum og vikum. Það sýnir hvað þetta er í raun óraunhæf eign að færa til bókar.

Að síðustu langaði mig til að geta um verkefni í Reykjavík. Það er alveg hárrétt hjá landsbyggðarþingmönnum að verkefni flytjast alltaf til Reykjavíkur. Þess vegna hef ég sagt að við eigum að vinna að því, allir hv. þingmenn, að minnka ríkið. Stærra ríkisbákn hefur í för með sér flutning á störfum til Reykjavíkur. Það er þannig. Auðvitað hafa landsbyggðarþingmenn horft upp á þetta. Vöxtur velferðarkerfisins, vöxtur ríkisins, er allur í Reykjavík þótt menn séu að myndast við það að flytja eitt og eitt starf, þvæla því út á land eins og þegar Kortagerðin var flutt til Akraness og kostaði mikil átök. Þetta er afleiðing af því að ríkið hefur vaxið svo mikið. Við ættum að vinna að því að minnka ríkið þannig að verkefnin fari aftur út á land í einkaframkvæmd. Það hefur líka sýnt sig að það eru einkafyrirtæki sem halda landsbyggðinni uppi. Það er hárrétt að þessi stofnun mun verða í Reykjavík. Það er meira að segja sagt fyrir um það og það þýðir að hugsanlega flytjast störf til Reykjavíkur. Reyndar er þetta skatturinn og hann hefur verið við lýði ansi lengi. Þetta er ekki ný stofnun, þ.e. ég tel að skattstofan sé ekki ný stofnun þannig séð þótt reynt sé að auka sérhæfingu á einum stað til að veita stórum fyrirtækjum góða þjónustu og hraða svo fella megi úrskurði hratt og vel, miklu betur heldur en sýslumannsembætti eða skattstofur úti á landi gætu gert.

Hér ræðum við í raun um stórpólitísk skattamál. Ég er mjög ánægður með að þetta frumvarp skuli komið fram og ég er mjög ánægður með niðurstöðu efnahags- og skattanefndar. Hún er ákveðið merki til atvinnulífsins um að löggjafarsamkundan vinni með íslenskum fyrirtækjum sem eiga sem stendur í dálítið erfiðri baráttu á alþjóðavettvangi.