135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

tekjuskattur.

325. mál
[16:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Mörg lönd eru með há iðgjöld í lífeyrissjóð. Þýskaland var með 18%, síðast þegar ég vissi og það er langt síðan, í gegnumstreymiskerfi. Þar er ekki króna í söfnun. En þeir eyða samt sem áður fimmtu hverri krónu í lífeyrissjóð. Það er ekki króna inni í honum.

Árið 1980 var staða íslenskra lífeyrissjóða þannig, eftir verðbólguhremmingar og óverðtryggt fjármagn að þeir voru að fara á hausinn, voru allir á hausnum með gersamlega óverðtryggðar eignir í óðaverðbólgu. Mér finnst hv. þingmaður gleyma hlut lántakenda hjá lífeyrissjóðunum, sem voru látnir borga verðtryggingu og mjög háa vexti og stóðu undir gífurlegri eignaaukningu lífeyrissjóðanna sem fór í gang eftir að verðtryggingin var tekin upp. Eignaaukning lífeyrissjóðanna byggist fyrst og fremst á verðtryggingu sem komið var á upp úr 1980. Við skulum ekki gleyma því. Það eru lántakendur sem margir hverjir, Sigtúnshópurinn o.fl., lentu mjög illa í því og stóðu undir þeim mikla vexti. Þeir kreistu undan nöglunum á sér afborganir af verðtryggðum lánum, jafnvel lánum sem fóru upp í 9% raunvexti þegar verst lét, með breytilegum vöxtum ofan á verðtryggingu sem mér finnst alltaf ósiðlegt.

Lífeyrissjóðirnir eru vissulega mjög sterkur bakhjarl en svo hafa fyrirtæki kvartað yfir því að krónan sé of lítil. Þeir vilji fá evru, annan gjaldmiðil o.s.frv. þannig að við þurfum að bjóða þeim betur til að halda þeim hér á landi. Þetta eru alþjóðleg fyrirtæki, þessi stóru útrásarfyrirtæki. Þau geta ákveðið á einum stjórnarfundi fyrir hádegi að flytja höfuðstöðvarnar eitthvað annað og þeir starfsmenn sem vilja fylgja með gera það. Aðrir verða eftir.