135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

virkjunarkostir á Vestfjörðum.

425. mál
[14:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna áhuga hans og yfirlýsingu um að tekið verði til við að skoða í fullri alvöru virkjunarkosti á Vestfjörðum í því skyni að hrinda þar af stað framförum á svæðinu. Það er fagnaðarefni eftir margra ára kyrrstöðu í þessum efnum að eitthvað skuli hreyfast hvað það varðar.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, og undirstrikar einmitt þörfina á að skoða frekar hugmyndir út frá þeirri vitneskju eða því sem við vissum best fyrir sex árum um þetta, að það er margt sem þarf að athuga við ákvörðun á virkjun, t.d. atriði eins og umhverfismál og hin stóra hugmynd um þakrennuvirkjun eða Glámuvirkjun snertir auðvitað umhverfismálin mikið. Við vitum að fossarnir í Dynjandisá eru náttúruvætti og það má ekki skerða vatnsmagn til þeirrar ár. Framkvæmdir sem menn kynnu að hugsa sér að fara út í verða auðvitað að taka mið af því og raska ekki hlutum sem menn vilja ekki raska og athuga þarf með hlunnindi í ám sem kunna að verða til athugunar eins og hér hefur verið nefnt. Engu að síður er þetta mjög áhugaverður kostur. Hægt er að skipta honum upp í ýmsa þætti sem gefa hver um sig umtalsverða virkjunarmöguleika. Einn möguleikinn er að flytja vatn úr Skötufjarðará og taka það niður í Mjólká og ná þar fram 20 megavatta virkjun svo dæmi sé tekið. Allt eru þetta kostir sem eru þess virði að vera skoðaðir einmitt í ljósi þess að með því að framleiða rafmagnið fyrir vestan losnar um rafmagn annars staðar á landinu sem þörf er á nær sínum upprunastað með minna flutningstapi sem er líka ávinningur, virðulegi forseti. Það eru því margir sem mundu njóta ávinnings af því ef meira yrði framleitt af raforku á Vestfjörðum en nú er gert.