135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

háskóli á Ísafirði.

[10:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í máli hæstv. ráðherra að hún talaði um að efla háskólanám. Hún talaði ekki um að koma á fót háskóla eða efla háskólastofnun á Vestfjörðum. Ég held að það sé kjarni málsins og um það hefur verið ágreiningur alla tíð við hæstv. menntamálaráðherra að ráðherra hefur staðið gegn háskólastofnun á Vestfjörðum.

Þá hefur verið leitast við að koma á fót háskólamenntun í íþróttafræðum á Suðurnesjum í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Þróunin í þeim efnum er hins vegar sú, vegna þess að það er ekki sjálfstæð stofnun og heimamenn hafa ekki forræði málsins á sinni hendi, að það nám er að leka aftur inn til Reykjavíkur og dregur úr starfseminni á Suðurnesjum. Það er því augljóst mál að sú uppbygging sem Suðurnesjamenn bundu vonir við er að misheppnast og það sama mun gerast á Ísafirði ef þar verður ekki sjálfstæð stofnun sem ræður sjálf för, virðulegi forseti.