135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:24]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að við myndun ríkisstjórnarinnar lýsti formaður Sjálfstæðisflokksins því yfir að með Samfylkingunni gæti Sjálfstæðisflokkurinn gert hluti í heilbrigðismálum sem ekki væri hægt að gera með Framsóknarflokki eða öðrum flokkum. Það liggur fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að einkavæða heilbrigðisþjónustu með fulltingi Samfylkingarinnar. Það hlýtur að vera skýringin á yfirlýsingu formanns Sjálfstæðisflokksins.

Það hefur oft áður komið fram í þessari umræðu að almenn ánægja er með heilbrigðisþjónustuna í landinu og þjónustu Landspítalans. Það hefur komið fram að OECD hefur gefið þessari þjónustu okkar góða einkunn og frekari einkavæðing á henni getur verið til þess fallin að rífa hana í sundur. Það liggur fyrir, virðulegur forseti, að nú ríkir stefnuleysi í málefnum Landspítalans sem er mjög slæmt og alvarlegt mál.

Við framsóknarmenn höfum í gegnum tíðina staðið að því að gerðir hafi verið þjónustusamningar um hina ýmsu þjónustu, bæði í heilbrigðismálum og öðrum málaflokkum og það hefur gefist vel. Það verður hins vegar að vanda vel til ákvarðana um slíka hluti og horfa til hlutverks Landspítalans sem háskólasjúkrahúss. Stjórnarliðar hafa hafnað því að til standi að fara út í einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu og þar á meðal á Landspítalanum. Ef það er rétt er mikilvægt að það komist á hreint í umræðunni og það komi fram hver stefnan er sem liggur að baki. Ég ítreka það, virðulegi forseti, og beini því til hæstv. heilbrigðisráðherra, að nú ríkir stefnuleysi og óvissa um starfsemi Landspítalans og vitna ég m.a. til viðtals við fyrrverandi forstjóra spítalans. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að verða við þeirri eðlilegu kröfu þjóðarinnar að stefnan í þessum málum verði skýr og að hún verði kynnt sem allra fyrst. Óvissan er slæm og það er í raun og veru ábyrgðarleysi.