135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

útvistun á heilbrigðisþjónustu Landspítala.

[11:28]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er ekki ný af nálinni og endurspeglar ágreining á milli markaðshyggju- og ríkishyggjumanna. Að sjálfsögðu er hv. málshefjandi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, trúr sannfæringu sinni og með sama hætti er hæstv. heilbrigðisráðherra að hluta til trúr sinni sannfæringu. Ef ég á að vera trúr minni sannfæringu get ég ekki séð annað en verið sé að stíga rétt skref í áttina að því að draga úr kostnaði en gæta þess jafnframt að viðhalda lágmarksþjónustu við aldraða. Það er hins vegar mikilvægt að bent sé á að við þurfum að auka þjónustuna, bæta gæði hennar. Það getum við bæði gert í einkarekstri og í ríkisrekstri. Sé það raunin að kostir einkarekstursins séu með þeim hætti að hægt sé að kaupa sambærilega þjónustu, sambærilegt öryggi eða betra fyrir minna fé á að sjálfsögðu að nýta sér þá kosti sem þar er um að ræða.

Ég tel, og ég legg áherslu á það, að við sem fylgjum mannúðlegri markaðshyggju viljum stíga hægt fram, nýta kosti einkaframtaksins til þess að ná fram betri þjónustu fyrir minni kostnað en gæta þess jafnan að menn viti hvert þeir stefna, hvar heildarstefnan liggur og hvar menn enda. Það sem nú er verið að gera, þau sjónarmið sem hér eru uppi, gerir ekki annað en fylgja stefnu sem hefur verið fylgt í þjónustu við aldraða. Ég vek athygli á því, og tek undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, sem hann rakti í máli sínu áðan, að einkaaðilar hafa iðulega rutt brautina í þjónustu við aldraða og vonandi verður það áfram.