135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

ráðstafanir í efnahagsmálum.

486. mál
[15:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að endurtaka ræðuna sem áðan var flutt af samflokksmanni mínum hv. þm. Jóni Magnússyni. Ég ætla þar af leiðandi að flytja mál mitt með öðrum hætti og forðast að tvítaka efni sem sett var fram í ræðum hér á undan.

Ég vil hins segja almennt um málið sem hér er til umræðu, flutt af þingflokki Vinstri grænna, að mér finnst að margt í þessum tillögum geti horft til bóta við núverandi aðstæður sem ríkisstjórnin geti nýtt sér tillögurnar sem hér eru settar fram í átta liðum.

Það er svo, hæstv. forseti, að stjórnarandstöðuflokkarnir hafa á undanförnum mánuðum farið í ýmsa umræðu um efnahagsmál, ýmsa þætti efnahagsmálanna og væri hægt að byrja á að vitna til umræðunnar um fjárlög á síðastliðnu hausti þar sem stjórnarandstaðan spurði spurninga og hafði efasemdir um það hvort allt væri jafngott, bjart og blessað, og ríkisstjórnarflokkarnir töldu, sérstaklega fjármálaráðherra í ræðum sínum sem, ef ég man rétt, hæstv. forseti, undraðist aðfinnslur erlendra fyrirtækja eins og Standard & Poor's og fleiri fjármálaeftirlitsfyrirtækja sem gerðu athugasemdir við stöðu Íslands. Fjármálaráðherra undraðist að það skyldi gert miðað við góða stöðu ríkissjóðs.

Því miður hefur komið í ljós að ýmsar viðvaranir frá þessum tíma hafa átt við rök að styðjast þótt ekki hafi verið varað við þeim, hæstv. forseti, af greiningadeildum bankanna. Ég minnist þess ekki sérstaklega, hæstv. forseti, að greiningadeildir bankanna hafi varað við því sem við höfum séð á fjármagnsmarkaði hér á landi og þeim mikla samdrætti sem þar hefur orðið né að menn hafi almennt átt von á erfiðleikum.

Það er kannski ekki hægt að ætlast til að á Íslandi séu menn sérstakir spámenn um hvað muni gerast úti í heimi. en væntanlega hafa íslensku bankarnir, sem fjárfesta mjög erlendis, reynt að greina markaðinn til framtíðar. Ég hygg að við höfum ekki verið nógu trúuð á að viðvörunarorð frá útlöndum ættu við rök að styðjast.

Ég hygg líka að í ljósi stöðunnar megi velta því fyrir sér hvort við vorum nógu forsjál við að einkavæða bankana og einkavæða og selja fyrirtæki eins og Símann þótt við höfum vissulega lagt þá peninga fyrir að talsverðum hluta. En við þurfum að takast á við stöðuna innan lands og ríkisstjórnin þarf að taka á henni, m.a. með þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram af Vinstri grænum. Reyndar hefur stjórnarandstaðan bent á það í hverri umræðunni á fætur annarri, bæði í fyrirspurnum og utandagskrárumræðum o.s.frv., að bregðast þurfi við.

Við höfum áhyggjur af olíuverðinu og hvernig það þróast innan lands, hvaða kostnaður kemur þar á fjölskyldur og flutninga, hvernig það færist inn í verðlagið og mælist í verðbólgunni og verður til að verðtrygging lánsfjár á Íslandi hækkar. En við búum við það kerfi eins og menn vita. Það sama má segja um áhyggjur okkar af vöruverði almennt. Vissulega eru breytingar erlendis á matvöruverði og aðföngum sem geta leitt til að hækka vöruverð og ríkisstjórnin getur horft til þess og spyrnt við fótum með aðgerðum sem menn hafa rætt og hent sín á milli sín, sem ekki hefur verið tekið á enn sem komið er. Forsætisráðherra hefur iðulega lýst því að enn væri ekki tími til að takast á við slíka hluti.

Við verðum að horfa á þróunina. Hún er alvarleg að því er varðar fjölskyldur í landinu. Það kom fram á fundi í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd með fulltrúum atvinnulífsins, fulltrúum vinnumarkaðarins, fulltrúum fjármálafyrirtækjanna, Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins, í ummælum fulltrúa Alþýðusambandsins, að eins og staðan væri miðað við þá vexti og verðtryggingu sem félli almennt á lánaskuldbindingar þeirra sem skulduðu í íbúðarhúsnæði hér á landi um þessar mundir, var þá miðað við meðalskuldir húsbyggjenda eða húskaupenda, að venjuleg fjölskylda þyrfti að hafa 700 þús. kr. í tekjur á mánuði til að standa undir því að borga af húsnæðislánunum samhliða því að halda fjölskyldunni á floti. Þessi staða er auðvitað þröng og hætt við því að fjölskyldur fari í vaxandi mæli að safna skuldum miðað við núverandi þróun.

Hæstv. forseti. Frjálslyndi flokkurinn lagði á haustdögum fram tillögu um að til lausnar á þeirri kjaradeilu sem vissulega hefur verið samið um að stærstum hluta á vinnumarkaði yrði lagt upp með að taka upp sérstakan persónuafslátt sem kæmi sérstaklega láglaunafólki til góða og eyddist út þegar tekjur einstaklings færu að nálgast 300 þús. kr. á mánuði. Við teljum enn, hæstv. forseti, að þetta hefði verið betri leið. ASÍ-forustan tók undir þá leið. Við teljum að það hefði verið betra en að fara þá leið sem farin hefur verið, hæstv. forseti. Á sama fundi gagnrýndi forusta ASÍ einnig hvernig hefur verið farið í skattalækkanir hér á landi upp úr árinu 2004, með flatri prósentuhækkun, afnámi hátekjuskattsins o.s.frv. Það verður að segjast eins og er að þetta eru sömu atriðin og Frjálslyndi flokkurinn og stjórnarandstaðan öll gagnrýndi á síðasta kjörtímabili, hvernig staðið væri að skattamálum. Við höfum vissulega varað við ýmsu sem menn sjá nú að voru rangar ákvarðanir.

Ég er enn þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að skynsamlegra hefði verið að hækka persónuafslátt sérstaklega fyrir láglaunafólkið og gera þá sem voru með 150 þús. kr. eða minna í tekjur lausa undan því að greiða tekjuskatt. Ég held að það hefði verið skynsamleg leið. Það hefði átt þátt í að halda niðri vöxtum, verðbólgu og verðlagi.

Við getum litið til þess hvað Norðmenn voru að gera nýverið. Hvað voru þeir að gera? Þeir héldu niðri launaþróun í Noregi með því að ríkið setti 150 milljarða kr. inn í lífeyrissjóðakerfið í Noregi, til að halda niðri launaþróun og sporna við þenslu en jafnframt að tryggja að lífeyrissjóðstekjur og afkoma lífeyrisþeganna væri betri þegar fram í sækti. Sams konar hugsun var í persónuafsláttarútfærslum okkar, að tryggja að láglaunafólk fengi raunbætur sem ekki færu beint út í verðlagið.

Sama má segja um tillögur okkar í almannatryggingum. Ég vænti þess að Íslendingar séu enn það langminnugir að þeir muni að stjórnarandstaðan lagði á síðasta kjörtímabili fram tillögur í velferðarmálum. Hvernig voru þær? Þær voru hugsaðar þannig að reyna að tryggja að þeir sem hefðu lægst laun fengju bætur og tekjutryggingu án skerðingar, sem dygði til að þeir kæmust af á lágmarkslaunum, að velferð þeirra væri tryggð að lágmarki. Þetta vorum við sammála um á síðasta kjörtímabili.

Vissulega ber að þakka það sem vel hefur verið gert og að stigin skref hafa verið skref að undanförnu í átt að þessum tillögum okkar af núverandi ríkisstjórn. Það skal hafa sem satt reynist en samt sem áður stendur mikið út af frá tillögum Samfylkingar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins á síðasta kjörtímabili. Við spiluðum saman tryggingum, skerðingarreglum og skattareglum til þess að búa til rauntekjur fyrir fólk.

Auðvitað skipta lágmarksrauntekjur máli. Það skiptir ekki miklu máli að fá 18 þús. kr. kauphækkun þótt um hana muni þegar 8 þús. kr. af því eru teknar til baka í sköttum eins og nú er. Menn verða bara að horfa á sannleikann. Það þurfti að ná rauntekjuaukningu fyrir láglaunafólkið í nýjustu kjarasamningum með þeim aðferðum sem ASÍ var tilbúið að fara þótt ríkisstjórnin og vinnuveitendur væru ekki tilbúin að fara þá leið. Ég tel rétt að vekja athygli á þessu. Við erum almennt að ræða um efnahagsmál. Þetta er partur af því að halda stöðugleika og reyna að tryggja þeim sem lökust hafa launin velferð og afkomu.

Ég minni á, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að auka þorskkvótann. Við teljum að það þurfi að gera eins og ástandið er, það sé ástæða til að gera það vegna þess að aflabrögð eru góð og ekkert sem bendir til að þorskstofninn sé í því svartnættishruni sem Hafrannsóknastofnun hefur spáð. Þó má ekki halda því fram að ég telji að þorskstofninn sé gríðarlega stór. En hann er í betra ástandi en menn gerðu ráð fyrir á vordögum. Það er sjáanlegt að holdafar fisksins hefur batnað. Það ber öllum sjómönnum saman um hvaðan svo sem þeir róa frá ströndum landsins.

Fiskgengd á grunnslóð er mikil. Við tókum örstutta umræðu um það hér fyrr í dag, hæstv. forseti. En aukning kvótans væri jákvæð í núverandi stöðu. Við mundum auka tekjur þjóðfélagsins og gefa vísbendingar um betri tíð. Ég minni á tillögur okkar frjálslyndra um ferðakostnað. Út á hvað gengur sú tillaga? Hún gengur út á að þeir sem ef til vill þurfa að sækja atvinnu um langan veg megi draga þann kostnað frá tekjum áður en skattlagt er. Skyldi muna um það í núverandi ástandi þegar kemur upp atvinnuleysi hér eftir apríl, þegar þorskkvótinn er búinn og menn þurfa jafnvel að fara að sækja atvinnu um langan veg, að slík regla væru innleidd? Ég held að svo væri. Það færi saman við að olíu- og bensínverð er himinhátt og ríkisstjórnin hefur ekki sýnt tilburði enn til að takast á við að lækka hlutdeild sína í olíu- og bensínverði.

Eins og þróunin er nú á olíu- og bensínverði eru nýjar tekjur ríkissjóðs, bara af þeim þætti, að nálgast 2 milljarða kr. eins og mál standa í dag. Miðað við samþykkt fjárlaga hafa tekjurnar verið 15,5 milljarðar en líklega eru komnir 2 milljarðar í viðbót í tekjur til ríkisins af þessum þætti sem allur almenningur kvartar undan. Það er rétt að draga þetta líka fram í þessari umræðu um efnahagsmálin.

Ég vék áðan að hátekjuskattinum og ætla ekki að endurtaka það. Ég hef ævinlega talið að niðurfelling hátekjuskattsins hafi verið mistök. Það þýðir ekki að ekki hefði mátt lagfæra hann eða endurskoða, taka upp ný tekjuviðmið o.s.frv. en í þróuninni í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum, þar sem ofurlaunamenn, sjálftökufólkið, hefur tekið sér tugi milljóna í laun á mánuði, er þetta arfavitlaust, hæstv. forseti.