135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

524. mál
[16:50]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Minni hæstv. ráðherra hefur brostið því ég hef aldrei mært krókódílana. Ég fór yfir þetta mál mjög eftirminnilega þegar ég varð ráðherra. Las allt um krókódíla, hitabeltisverur sem átti að flytja til Húsavíkur og nota bæði leðrið í stígvél og fatnað á konur og borða kjötið. Ég hef sagt frá því, af því hann minntist stundum á þorrablótin, að ég hefði komist að þeirri niðurstöðu að þessi stórhættuleg dýr gætu hlaupið á 60 kílómetra hraða og étið Samfylkinguna. Ég hefði viljað bjarga henni.

Og til að setja inn í þingsöguna þá sagði hið góða skáld Hákon Aðalsteinsson til minningar um aðkomu mína þegar ég hafnaði þessari niðurstöðu:

Húsvíkingar sitja nú í sárum,

sviptir eru góðri tekjuvon,

grætur köldum krókódílatárum

kvikindið hann Guðni Ágústsson.

Þannig varð þessi ákvörðun nú til, ég hafnaði henni af faglegum ástæðum. Þeir áttu ekki erindi inn íslenskt lífríki og um það verðum við að hugsa.

Hæstv. ráðherra sagði að það stæði allt á haus. Landbúnaðurinn hefur verið hér í mikilli þróun. Af hverju mæla menn svona orð? Landbúnaður á Íslandi hefur vakið athygli um allan heim og hefur verið í mikilli framför. Ég trúi því að eftirmaður minn muni standa þar vel á vaktinni bæði með varnir og annað og að landbúnaðurinn geti áfram verið framsækinn og þar verði náð miklum árangri.

Nú eftir að krónan fallin í höndum hæstv. iðnaðarráðherra svo um munar og ferðamenn streyma til Íslands þá sagði ég hér í dag að Samfylkingin ætti að beita sér fyrir því að bera saman matvælaverð á Íslandi og í Evrópulöndunum. Það kann að verða mikil breyting frá því eftir að gengið hreyfðist til. Ég skora á hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að gera það eða fá félaga sinn viðskiptaráðherrann í hinni kompunni til þess (Forseti hringir.) að gera þetta.