135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[17:05]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur ekkert vantað upp á að ríkisfjármálum væri beitt til þess að ná árangri í efnahagsmálunum. Hér hefur ríkissjóður verið rekinn með metafgangi ár eftir ár og við afgreiddum fjárlög í desember með metafgangi líka. Síðan á efnahagsframvindan eftir að segja til um það hvort niðurstaðan verður nákvæmlega eins og fjárlögin segja til um.

Sú athugun sem þegar hefur verið gerð bendir ekki til þess að kjarasamningar og þær aðgerðir sem þeim fylgja muni hafa veruleg áhrif til þess að raska þeirri niðurstöðu. Ég held því að í öllum samanburði og öllum skilningi verði 40 milljarða afgangur miðað við þær forsendur sem við þá vorum að vinna út frá ekki sagður vera lítið tillegg til þess að ná tökum á verðbólgunni.

Hins vegar getur verið að efnahagsforsendurnar breytist og að þá verði ekki um svo mikinn afgang að ræða. Það er þá vegna hinna svokölluðu sveiflujafnandi áhrifa sem eru í skattkerfinu. Þá mun vandamálið heldur ekki verða það sem hv. þingmaður gerir því skóna að við séum að glíma við, þá munu verða minni umsvif í efnahagslífinu, jafnvel samdráttur, og þá er mjög ólíklegt að verðbólgan verði vandamál sem við þurfum að glíma við.