135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er ekki annað hægt en votta aumingja Samfylkingunni samúð með það hvernig hún er að fara með orðstír sinn og rykti á sviði umhverfismála, hvernig Fagra Ísland er að fara niður í svelginn þessa dagana. Það sést auðvitað best á því hversu vondur málstaður manna er þegar þeir reyna ekki að verja sig. Þeir reyna ekki að bera það til baka að þeir séu að svíkja stefnuskrá sína og kosningaloforð heldur reyna að réttlæta það með því að ljúga áformum eða áætlunum um hið sama upp á aðra og telja að þeir séu lausir mála með því að taka einstök ummæli úr samhengi, snúa út úr þeim og snúa þeim upp í andhverfu sína, bera það á aðra að þeir hefðu hugsanlega brotist inn húsið sem þeir eru sjálfir búnir að mölva sig inn í.

Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessum efnum liggur ljós fyrir í tillögum og frumvörpum á þingi á umliðnum árum og gerir enn, í landsfundarsamþykktum, í stefnuyfirlýsingu flokksins og í metnaðarfyllsta riti sem til er á Íslandi um umhverfismál, Grænni framtíð okkar. Ég hvorki get né vil breyta þeirri stefnu með einstökum ummælum. Það er ekki þannig sem hlutirnir ganga fyrir sig í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ég hélt það gerðist almennt ekki í flokkum. Þótt einstakir menn tali kannski ógætilega og í aðrar áttir en yfirlýst stefna flokkanna er þá hélt ég landsfundarsamþykktir og stefnuskrár giltu. En verkin ... (ÁPÁ: Þetta eru ógætileg ummæli.) Verkin breyta, hv. þingmaður. Þau eru í alvöru. Ef menn svíkja stefnu í verki sína þá gildir það. (Gripið fram í.) Ég verð að segja að ég hef ekki talað gegn stefnu flokksins, fyrir henni tala ég og í þessu tilviki um Helguvík var þetta langt viðtal þar sem ég var að telja upp hin lagalegu, eignarhaldslegu og stjórnsýslulegu úrræði sem væru til að stoppa hlutina og Helguvík var ekki þá og er ekki enn endanleg leið þannig að stjórnvöld hafi í höndum sínum tæki til að stoppa hana. En heldur aumingja Samfylkingin virkilega að hún sé laus mála, að hún sé leyst frá kosningaloforðum sínum með því að ljúga einhverju upp á mig? (Forseti hringir.) Heldur hún að kjósendur hennar láti bjóða sér það? Af hverju reynir Samfylkingin ekki að bera það upp á mig að ég hafi aldrei meint neitt með andstöðu við erlendan her (Forseti hringir.) og ég vilji endilega fá hann aftur? Það er svona hliðstætt.