135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:11]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá góðu og yfirgripsmiklu skýrslu sem hér var kynnt og sömuleiðis var gott að hlusta á umræðuna sem hér hefur farið fram þótt hún hafi vissulega verið misgjöful svo sagt sé frá mínu brjósti. Hvað um það, mig langar í upphafi í inngangskafla að leyfa mér að færa mig svolítið til bæði í tíma og rúmi.

Líkt og margir aðrir þingmenn sótti ég afar merkilegan fund í morgun í Háskólabíói þar sem Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, flutti erindi um loftslagsmál og hlýnun jarðar. Ég ætla ekki að gera það að umtalsefni hér en í framsögunni notaði hann sér PowerPoint-kynningu eða myndir og sýndi m.a. myndir af hnettinum. Mig langar aðeins að minnast á þessar myndir vegna þess að þær vekja mann svolítið til umhugsunar í þessari umræðu um utanríkismál. Í fjarlægð gefur að líta veröldina, hún er bara ein, og margar slíkar myndir eru, þær sem við þekkjum, eins og teknar frá tunglinu. Síðan fáum við líka mynd, sem ég minnist sérstaklega í morgun, þar sem jörðin var eins og rykkorn á stórum skjá, rykkorn í órafjarlægð. Þetta minnir okkur á það að heimurinn er einn.

Annað sem ég vildi líka gera er að færa mig til í tíma, í óravíddir, og rifja upp að það eru á að giska 170 þúsund ár síðan forfeður okkar litu dagsins ljós í Afríku, lítill hópur formæðra og forfeðra okkar sem síðan dreifðist um veröldina eins og þekkt er. Fyrir um 2.000 árum voru jarðarbúar 250 milljónir. Fyrir rúmlega 1.100 árum byggðist Ísland. Þetta þekkjum við öll. Fyrir 100 árum var Ísland nýlenda og meðal fátækustu þjóða í Evrópu og allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar vorum við skilgreind sem þróunarríki. En eins og kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra eru heimamálin í dag heimsmál og heimsmálin heimamál, því að utanríkis- og innanríkismál verða æ samofnari. Við erum ekki lengur einangruð eyþjóð heldur getum við látið að okkur kveða á alþjóðavettvangi og þetta er mikilvægt. Það er mikilvægt að við, allar þjóðir heims, getum látið að okkur kveða vegna þess að við þurfum sameiginlega að fást við þau verkefni, þau vandamál og þau tækifæri sem blasa við okkur öllum, heimsbúum, og við stöndum frammi fyrir. Ég vil sjá okkur taka frumkvæði á alþjóðavettvangi. Við eigum þar fullt erindi í krafti reynslu okkar, viðhorfa, þekkingar og sérstæðrar sögu, já, afar sérstæðrar sögu sem við getum miðlað af um leið og við höfum samskipti og viðskipti við aðrar þjóðir. Og um leið og við veitum fjármuni og þekkingu í þróunaraðstoð höfum við líka svo margt að læra af öðrum og við þurfum enn þá frekar að þróa okkar lýðræði og okkar þjóðfélagsuppbyggingu. Það er alveg ljóst.

Því fagna ég sérstaklega þeim sóknarhug og þeirri festu sem býr í þessari skýrslu og framsögu hæstv. utanríkisráðherra. Ég fagna því að boðað sé frumkvæði í alþjóðamálum, ég fagna því að við boðum virka utanríkisstefnu. Það er svo margt í skýrslu hæstv. ráðherra sem ber vitni um sóknarhug og vilja okkar til að taka þátt í alþjóðasamfélaginu. Ég ætla að nefna fjóra þætti en í skýrslunni allri eru nefndir afar margir þættir. Þessir fjórir þættir eru framboðið til öryggisráðsins, ný varnarmálalög, enduruppbygging þróunarsamvinnunnar og svo mikilvægi þess að tala einum rómi og kynna Ísland fyrir umheiminum.

Í fyrsta lagi er framboðið til öryggisráðsins. Það framboð á sér eins og þingheimur veit 10 ára sögu og ég hef, satt best að segja, bæði haft á því þá skoðun að þetta væri hið mesta óþarfaverk en á allra síðustu árum þá skoðun að þetta sé afar mikilvægt vegna þess að vegferðin í lífinu er mikilvæg, vegferð þeirra 10 ára sem við höfum verið að kynna þjóðum heims framboð okkar og þá um leið auðvitað land okkar og þjóð. Það er til einhvers farið og þó að við fengjum ekki þetta sæti, sem ég vona auðvitað að við fáum, er vegferðin samt þess virði og margfalt það. Við erum reynslunni ríkari og við segjum við alþjóðasamfélagið að við höfum bæði metnað og vilja til að axla okkar ábyrgð og leggja af mörkum. Ég hlakka til að sjá niðurstöðu þessa framboðs, þ.e. þegar kosið verður. Ég veit af eigin reynslu, ég hef kynnst t.d. framboðsmálum Tyrklands og mér virðist alla vega að þeir verji afar miklum fjármunum í þessi mál og ég er bæði stolt og þakklát að sú skuli ekki vera reynslan hjá okkur heldur höfum við farið fram og kynnt okkar málstað.

Í öðru lagi vildi ég nefna varnarmálalögin. Varnarmálalögin hafa verið rædd mikið í utanríkismálanefnd, en þar á ég sæti ásamt fleiri þingmönnum, og mig langar að nota tækifærið til að rifja það aðeins upp af því að ég var fjarverandi við afgreiðslu utanríkismálanefndar á frumvarpinu. Í frumvarpinu er lagt til að Varnarmálastofnun sjái um verkefni Íslendinga á sviði varnarmála og sinni auk þess verkefnum sem tengjast loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins og rekstri loftvarnaeftirlitsins. Margir þættir í þessu frumvarpi sem við ræddum í utanríkismálanefnd eru í þingskjali 814 sem lagt hefur verið fram. Ég trúi að formaður utanríkismálanefndar muni kynna það, það er meirihlutaálit utanríkismálanefndar þar sem fram koma nokkrar breytingartillögur og ég vil nú í þessum ræðustól lýsa mig fylgjandi þeim breytingartillögum þar sem ég var fjarverandi og skrifaði þar af leiðandi ekki undir álitið.

Í þriðja lagi vildi ég tala um endurskipulag þróunarsamvinnunnar. Þar erum við að skerpa áherslur í takti við fjóra hornsteina sem hafa verið lagðir í sambandi við þróunarsamvinnuna eða leiðarljós, þ.e. mannauður, mannréttindi og lýðræði, friður og öryggi og sjálfbær þróun. Það er svo margt hægt að segja um þróunarsamvinnuna, hún skiptir okkur afar miklu máli og ég er þakklát fyrir að við skulum vera að auka framlögin til þeirra mála. Þau skipta afar miklu máli. Ég held að við Íslendingar getum skipt afar miklu máli, með áherslu á frið og öryggi, með áherslu á konur og jafnrétti og enn fremur það sem kemur fram í skýrslunni getum gert góða hluti í þróunarsamvinnunni. Mig langar þó að benda á að í þeim málaflokki þurfum við að skerpa aðeins fókusinn. Við verðum að vita hvað það er sem við ætlum að leggja áherslu á. Við förum svolítið út um víðan völl. Sem talsmaður menntamála mundi ég gjarnan vilja sjá okkur setja alla þróunarpeningana í menntamál. Það er nú svo einfalt. Ég segi nefnilega að menntastefna þjóðar sé um leið atvinnu- og efnahagsstefna og samfélagsstefna hennar. Menntamálin eru því grundvallarmál. En það er eitthvað sem ég ætla ekki að ræða frekar, enda tíminn af skornum skammti.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að ræða mikilvægi þess að við tölum einum rómi og kynnum landið okkar. Dr. Svafa Grönfeldt, sem nú er rektor Háskólans í Reykjavík, leiddi hóp manna sem hefur verið að kanna viðhorf Íslendinga, kvenna og karla, til okkar sjálfra og reyna að framkalla það hver við erum vegna þess að í augum umheimsins og þjóða heims er það óljóst. Þar koma fram þrjú orð, þrjú hugtök: Frelsi, friður, kraftur. Og mig langar að benda á að þessi hugtök kallast mjög á við hornsteina utanríkismálastefnu okkar Íslendinga sem eru mannréttindi og frelsi, aukin þróunarsamvinna og friðsamleg lausn deilumála sem er friður. Krafturinn á að nýtast okkur til að gera heiminn betri.