135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:56]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er réttmæli að tala um hið nýja NATO vegna þess að NATO í dag, þetta 26 ríkja bandalag sem það er, er nokkuð annað NATO en til var stofnað árið 1949 þegar Íslendingar gerðust aðilar að því. Evrópuvængur þessa nýja NATO er miklu meira áberandi. Hann hefur miklu meiri styrk í NATO en hann hafði áður og það ætti að vera fagnaðarefni. Það ætti líka að vera fagnaðarefni að fleiri ríki með fjölbreyttari viðhorf og þarfir eru í þessu bandalagi.

Ég leyfi mér að fullyrða af því að hér er talað mikið um NATO sem hernaðarbandalag að þær Evrópuþjóðir sem eru í NATO eru ekki herfúsar þjóðir. Þetta eru ekki þjóðir sem eru að herja á önnur lönd, Danir, Norðmenn, Þjóðverjar og fleiri, þetta eru ekki vígfúsar þjóðir. Þessi útlistun á NATO er því ekki rétt.

Varðandi Afganistan þá var það öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem fól NATO að stýra verkefninu í Afganistan. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fól NATO að stýra þeim alþjóðlegu öryggissveitum sem þar eru frá 40 ríkjum. Það er alveg rétt að mönnum hafa verið mislagðar hendur í Afganistan og þar hefur ekki allt tekist jafn vel. Þetta mun auðvitað taka tíma og þá ætla ég að rifja það upp að nú eru tíu ár síðan að farið var inn í Kosovo. Þar eru enn þá 16.000 hermenn. Þar voru þegar mest var 40.000 (Forseti hringir.) hermenn, jafnmargir nánast og í Afganistan sem er 65 sinnum stærra land.