135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:02]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. „Nýtt tímaskeið er hafið í öryggis- og varnarmálum Íslands“, segir í skýrslu hæstv. ráðherra, og nokkrum línur neðar segir:

„Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna og aðildin að Atlantshafsbandalaginu hafa verið og eru enn hornsteinar varna landsins.“

Herinn fór — og þó. Í stað fastrar veru bandarísks herliðs hér á landi er kallað til herlið frá öðrum löndum til æfinga til þess að leggja hér undir sig íslensk landsvæði til æfinga á friðartímum. Ég spyr: Hver er fastur í fortíð kalda stríðsins? Það eru þeir sem viðhalda þessu sama kerfi og við gerðumst aðilar að illu heilli 30. mars 1949.

Við köllum eftir annarri framtíð, við erum ekki föst í fortíð. Við köllum eftir nýrri framtíð þar sem Ísland er sem herlaust land og hefur þá sérstöðu sem ég nefndi hér áðan að vera herlaust land, getur verið fordæmi og fyrirmynd og leitt friðarferli en ekki tekið þátt í stríðsaðgerðum. Ég minni á að ég nefndi Afganistan í tengslum við þróunaraðstoðina vegna þess að það er verið að dulbúa þessa svokölluðu friðargæslu sem þróunaraðstoð. Ég mótmæli því sérstaklega að það sé borið upp á mig að ég hafi það viðhorf að allir þeir sem eiga um sárt að binda í þessum heimi og við erum ekki í aðstöðu til þess að hjálpa, megi bara éta það sem úti frýs.