135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

tónlistarnám á framhaldsskólastigi.

502. mál
[13:07]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka þau svör menntamálaráðherra sem lúta að því að hún lýsir sig nú algerlega sammála þeirri stefnu að ríkið standi að framhaldsmenntuninni og það hef ég talið mjög mikilvægt. Ég hafði einmitt kynnt mér svör menntamálaráðherra frá því fyrr í haust og þau hafði ég ekki alls kostar skilið og vona að sú stefna sem kemur fram hér í dag gildi.

Ég tel brýnt að leyst verði úr þessu máli strax vegna þess að, eins og fram kom í ræðu hæstv. menntamálaráðherra, þetta hefur staðið fast árum saman án þess að nokkur lausn fáist og á meðan hrökklast fjöldi nemenda úr námi. Sjálfur veit ég um nemendur sem hafa skipt um framhaldsskóla vegna þess að þeir hafa viljað leggja stund á ákveðna boltaleiki, sem er mjög gott, og fært sig þess vegna yfir í annað sveitarfélag en sitt lögheimilissveitarfélag og ríkið greiðir fyrir námið á íþróttabrautinni en þeir hafa þá um leið orðið að hætta tónlistarnámi sínu. Það er mjög slæmt þegar 16 og 17 ára ungmenni hætta í námi sem þau hafa samt mikla hæfileika til og leggja það á hilluna vegna brotalama í regluverki okkar, vegna þess að menntamálaráðuneytið hefur ekki náð að halda utan um málefnið. Það tapast mjög mikil þjóðarverðmæti þegar ungmenni geta ekki stundað námið á þeim tíma þegar þau eru að vaxa úr grasi og detta út af listbraut sem er þeim kannski mjög opin.

Ég kalla eftir því að menntamálaráðherra beiti sér fyrir lausn þessara mála strax. Og að á meðan ekki er búið að finna lausnina á milli ríkis og sveitarfélaga beiti hún sér fyrir bráðabirgðalausnum þar sem nemendur í þessari stöðu geta þá sótt um styrki til að greiða skólagjöld þar sem sveitarfélög eru ekki til þess búin. Það er í raun og veru einföld bráðabirgðalausn.