135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

frumvarp um matvæli -- löggæsla á Suðurnesjum -- þjóðlendur.

[13:55]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það málefni sem ég ætla að tala um hér er ótengt löggæslumálum á Keflavíkurflugvelli en ég get í þessu tilviki gert orð Kristins H. Gunnarssonar algjörlega að mínum.

Ég vildi ræða hér lítillega um þjóðlendukröfur ríkisins. Nú er það komið upp að enn eru lagðar fram kröfur sem grundvallast á mikilli óbilgirni. Enn er farið inn í þinglýst lönd bænda og sveitarfélaga, meira að segja eru skíðasvæði norðanmanna ekki óhult fyrir þessari ásælni ríkisvaldsins og þetta er þvert á þau loforð sem gefin hafa verið slag í slag. Þess vegna kalla ég eftir viðbrögðum þingmanna Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi, þar sem nú er höggvið niður, við því hvort þetta sé þeim þóknanlegt. Ég tel að hér sé í raun og veru gengið algjörlega á bak þeirra orða sem hafa verið gefin um að kröfugerð verði milduð og einkanlega þó um það að öðruvísi verði farið að, þ.e. að þetta verði ekki rekið sem einskær málaferli heldur verði farin samningaleiðin í þjóðlendumálum. Það hefur verið margboðað fyrir kosningar og svo aftur nú á aðalfundi landeigenda, þá var boðað með mjög ákveðnum hætti af hæstv. fjármálaráðherra að farin yrði samningaleið, það yrði samið um hlutina og svo aðeins að í því sem ágreiningur væri um yrði stefnt að málaferlum. Eins var því lofað að heimildaöflun áður en kröfur yrðu lagðar fram yrði mun ítarlegri en hvorugs sér stað í því sem nú er verið að vinna.

Ég get alveg viðurkennt að það er kannski ögn mildari kröfugerð hjá fjármálaráðherra að því (Forseti hringir.) marki að hann tekur mið af þeim dómum sem fallið hafa. Honum væri líka algjörlega útilokað annað en að taka mið af þeim dómum sem fallið hafa.