135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

samningsmarkmið ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[15:54]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við Íslendingar búum yfir miklu af óvirkjaðri orku. Talið er að eingöngu 20–30% af orkunni hafi verið virkjuð og þetta er allt hrein orka og hún er ekki einhvern veginn geymd, hún rennur til sjávar eða gufar upp í hverunum á hverjum degi þannig að hún hverfur. Á sama tíma er verið að reisa raforkuver í Kína og á Indlandi sem brenna kolum, olíu og gasi sem menga og valda koltvíoxíðslosun í mjög miklum mæli. Ég skora því á hæstv. umhverfisráðherra að gæta þess að þetta íslenska ákvæði verði ekki hamlandi í því að Íslendingar megi virkja heldur hvetjandi, þ.e. að hún hugsi um hag alls mannkyns og bjóðist til þess að Íslendingar virki eins mikið af auðlindum sínum eða orku og hægt er án þess þó að ganga of nærri náttúrunni. (SJS: Þú verður að ganga í Framsóknarflokkinn.)

Það kann vel að vera að kenningin sem Al Gore var ræða um í gær sé bara vitleysa og kannski eru Kína, Rússland, Suður-Afríka og Indland ekki á sama hnetti og Ísland, það getur vel verið, en þá skulum við bara segja það. Ég held því nefnilega fram að þetta sé sami hnötturinn og ég er farinn að trúa umræddri kenningu. Þess vegna skora ég á hæstv. umhverfisráðherra að breyta íslenska ákvæðinu úr því að vera hamlandi hvað varðar notkun íslenskra orkulinda í það að vera hvetjandi.