135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Veðurstofa Íslands.

517. mál
[11:09]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra laga um Veðurstofu Íslands. Í lögum nr. 167/2007, um flutning verkefna innan Stjórnarráðsins, er m.a. kveðið á um stofnun nýrrar stofnunar um verkefni Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar, sem taki til starfa innan stjórnsýslu umhverfisráðuneytisins eigi síðar en 1. janúar 2009. Var mér falið að undirbúa sameiningu stofnananna á yfirstandandi ári, m.a. að því er varðar nauðsynlegar lagabreytingar. Þáttur í þeim undirbúningi var skipun starfshóps fyrr á þessu ári sem í áttu sæti veðurstofustjóri, forstöðumaður vatnamælinga Orkustofnunar, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytis auk þriggja sérfræðinga í umhverfisráðuneytinu. Fulltrúar starfsmanna Veðurstofunnar og vatnamælinga tóku einnig þátt í starfi hópsins. Frumvarpið sem ég mæli nú fyrir var samið í umhverfisráðuneytinu samhliða vinnu starfshópsins og er efni þess í samræmi við tillögur hans.

Lagt er til í frumvarpinu að hin nýja stofnun beri heitið Veðurstofa Íslands þó að nafnið lýsi einungis einum af mörgum þáttum í fjölbreyttri starfsemi hinnar nýju stofnunar. Nafn Veðurstofu Íslands á sér langa sögu, er vel þekkt meðal þjóðarinnar og skipar ákveðinn sess í huga hennar. Er því lagt til að nafnið verði varðveitt í heiti nýrrar sameinaðrar stofnunar.

Í frumvarpinu er á því byggt að öll núverandi verkefni Veðurstofu Íslands og vatnamælinga Orkustofnunar færist yfir til nýrrar stofnunar. Auk fyrra hlutverks Veðurstofu Íslands á sviði veðurathugana, jarðmælinga og öryggisvöktunar náttúruvár mun stofnunin annast almennar rannsóknir á vatnafari og loftslagi og verða miðstöð umhverfisráðuneytisins í vöktun lofts, vatns, jarðar og elds. Með sameiningu Veðurstofu Íslands og vatnamælinga er stefnt að hagræðingu í starfi og styrkari samvinnu á öllum sviðum sem lúta að jarðskorpuhreyfingum, veðurfari og vatnafari, vöktun náttúru og viðbrögðum við náttúruvá. Sameinuð stofnun hefur þannig breiðara fagsvið og meiri styrk til að sinna ýmsum verkefnum í náttúru Íslands sem fram til þessa hafa legið utan garðs. Þá munu rannsóknir vegna loftslagsbreytinga, sem nauðsynlegt er að auka á næstu árum, falla vel að starfsemi hinnar nýju stofnunar svo og aukin áhersla á vöktun og viðvörun vegna náttúruvár af ýmsu tagi. Nýja stofnunin mun enn fremur styrkja umhverfisráðuneytið í umsjón vatnsauðlinda samkvæmt alþjóðasamningum og í alþjóðasamstarfi sem Ísland hefur gerst aðili að, jafnframt því að styrkja framfylgd evrópsku vatnatilskipunarinnar sem tekin hefur verið upp hér á landi og nær til alls fersks vatns og strandsjávar.

Fjármögnun vatnamælinga Orkustofnunar annars vegar og Veðurstofu Íslands hins vegar hefur verið mjög ólík. Meiri hluti fjármögnunar Veðurstofunnar hefur komið beint af fjárlögum en aðeins lítill hluti fjármögnunar vatnamælinga. Hins vegar kemur tiltölulega stór hluti fjármögnunar vatnamælinga óbeint að fjárlögum á grundvelli samnings við Orkustofnun um rannsóknir og vöktun á vatnsauðlindinni. Óbeint hefur Veðurstofan með sama hætti fengið opinberar fjárveitingar á grundvelli þjónustusamnings við Ofanflóðasjóð. Báðar stofnanir hafa þannig fengið verulegar tekjur af sölu þjónustu. Hátt hlutfall sértekna hjá vatnamælingum hefur þýtt að stofnunin hefur kostnaðargreint starfsemi sína mjög nákvæmlega og verðleggur þjónustu sína á grundvelli slíkrar greiningar. Veðurstofan hefur ekki unnið slíka greiningu nema að hluta. Lagt er til að fjármögnunin byggi fyrst um sinn á núverandi aðferðum og verði því í upphafi mismunandi eftir viðfangsefnum. Hins vegar er full ástæða til að nýta kosti samningsformsins við fjármögnun, byggða á gagnsærri greiningu kostnaðarþátta og þjónustusamningum með svipuðum hætti og gert hefur verið á vatnamælingum og þróa starfsemina í þá átt eftir því sem tök eru á og hentugt þykir. Er á þessu byggt í 4. gr. frumvarpsins.

Öflun og varðveisla gagna mun verða fyrirferðarmikil í hinni nýju stofnun. Gert er ráð fyrir að frá upphafi verði út frá því gengið að öll þau gögn sem stofnunin aflar fyrir opinbert fé af fjárlögum verði opin fyrir alla og gerð aðgengileg á opnum vef stofnunarinnar. Er það í samræmi við gagnastefnu ríkisstjórnarinnar. Greiðslur komi aðeins til gegn þeim kostnaði sem fer í það að afgreiða eða afhenda gögnin með öðrum hætti og þá að ósk notenda. Þó getur stofnunin þurft að gera fyrirvara um afhendingu gagna í annarra eigu.

Höfuðstöðvar Veðurstofunnar eru við Bústaðaveg í Reykjavík en vatnamælingar eru til húsa í Orkugarði við Grensásveg í Reykjavík. Unnið er að því að finna starfseminni sameiginlegt húsnæði en slíkt er forsenda fullrar samþættingar og bestu nýtingar á þeim mannauði sem stofnanirnar búa við í dag. Veðurstofan rekur starfsstöðvar á Akureyri og Ísafirði og hefur starfsemi þeirrar síðarnefndu verið efld á undanförnum árum með umtalsverðum stuðningi stjórnvalda. Stofnunin nýtur einnig starfskrafta veðurathugunarmanna og gæslumanna með jarðskjálftamælum vítt og breitt um landið. Vatnamælingar ráku tímabundna starfsstöð á Egilsstöðum í tengslum við undirbúning og byggingu Kárahnjúkavirkjunar.

Gert er ráð fyrir að hin nýja stofnun verði með starfsstöðvar á Ísafirði og Akureyri en sameining starfseminnar skapar bættar rekstrarlegar forsendur til að efla starfsemina þar og jafnvel reka fleiri starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins.

Í ákvæði frumvarpsins til bráðabirgða kemur fram að bjóða skuli þeim starfsmönnum vatnamælinga Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands sem eru í starfi við gildistöku laganna starf hjá hinni nýju stofnun með sömu ráðningarkjörum og áður giltu.

Hæstv. forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins og ég legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.