135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

Veðurstofa Íslands.

517. mál
[11:21]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að lengi hefur verið mikill áhugi fyrir að sameina þessar tvær stofnanir, vatnamælingar Orkustofnunar og Veðurstofu Íslands, og búa þar með til nýja stofnun, sterka vísinda- og rannsóknastofnun á sviði þeirra þátta sem lúta að jarðeðlisfræði eða eðli jarðarinnar — hvort sem það er jörð, loft, vatn, snjór eða annað, það eru verkefni þessarar stofnunar og ekki hefur verið neinn ágreiningur um þetta í ferlinu. Ég er þeirrar skoðunar að stofnun þessarar nýju stofnunar hafi verið afar vel unnin. Við létum fyrst gera þarfagreiningu undir stjórn fyrrverandi háskólarektors, Sveinbjörns Björnssonar, og starfshópurinn sem vann tillögur að nýrri stofnun, og jafnframt var frumvarpið unnið, starfaði mjög þétt og vel. Í honum sátu líka fulltrúar starfsmanna beggja stofnana, sem ég tel að skipti mjög miklu máli. Niðurstaðan var einróma úr þeim hópi og engar deilur um þær tillögur sem hér voru lagðar fram. Það var einungis eitt atriði sem stóð út af þegar málinu var skilað til mín, það var nýtt heiti hinnar nýju stofnunar og niðurstaðan varð sú sem er í frumvarpinu.

Ástæða þess að lagt er til að ráðinn sér nýr forstjóri frá 1. ágúst og að ný stofnun verði til 1. janúar er einfaldlega sú að gefa nýjum forstjóra undirbúningstíma til að vinna sig inn í nýtt starf og nýja stofnun. Ég held að það sé gagnlegt og betra en að byrja algerlega á núllpunkti 1. janúar. Það kann að vera að fulltrúar í umhverfisnefnd hafi á því einhverja aðra skoðun en ég hygg að þetta sé ágætisfyrirkomulag.

Fresturinn vegna kostnaðargreiningar er býsna langur eða til 2011. Það getur vel verið að þetta taki styttri tíma. Rekstrarþættir vatnamælinganna eru mjög vel kostnaðargreindir en eðli málsins samkvæmt hefur það ekki verið unnið með þeim hætti á Veðurstofunni þannig að það tekur tíma að gera þetta og það þarf að gera það almennilega og það getur vel verið að því verði lokið fyrr en á árinu 2011.

Vegna athugasemda hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um fagráðið til ráðgjafar þá er hugsunin auðvitað sú að þar sé vísindalegur grunnur, þar sé fagráð sem efli t.d. tengsl við háskólana í landinu og rannsóknir á þessu sviði. En það er fyllilega athugandi að skilja það ekki bara eftir í reglugerð að skilgreina betur hvað það eigi að gera eða hvernig það eigi að vinna. En ég treysti hv. umhverfisnefnd fyllilega til þess að ráða fram úr því eins og öðru og vonandi afgreiða frumvarpið fljótt og vel á vorþinginu.