135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:31]
Hlusta

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum tekið ákvörðun um að fjölga heræfingum, fækka heræfingum eða hætta heræfingum algjörlega án þess að þurfa að breyta þessu máli, þessu frumvarpi. Frumvarpið er ekki lögleiðing á einhverjum tilteknum fjölda heræfinga á Íslandi, langt í frá, þetta hefur ekkert með það að gera. Þetta hefur með utanumhaldið og umgjörðina að gera, þetta hefur með ýmis framkvæmdarleg atriði að gera, m.a. sem lúta að mannvirkjum NATO á Íslandi, og þessum verkefnum öllum erum við koma fyrir í sérstakri stofnun. Hvað við ætlum síðan að gera þegar hættumatsnefndin lýkur störfum verður bara að koma í ljós. Ég sagði í fyrri ræðu minni áðan að það verður viðvarandi verkefni fyrir okkur í framtíðinni að meta með hvaða hætti við viljum helst vera virkir þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu. Ég nefndi sem dæmi að við höfum tekið yfir rekstur flugvalla, við erum með friðargæsluliða. Það er staðreynd að þær ratsjárstöðvar sem Varnarmálastofnun kemur til með að taka yfir reksturinn á gegna mjög mikilvægu hlutverki í loftvarnaeftirlitskerfi NATO. Það er staðreynd sem verður mjög erfitt fyrir okkur að horfa hreint fram hjá og leggja ískalt íslenskt mat á hvort við viljum halda ratsjárstöðvunum í gangi eða ekki.

Auðvitað setti það okkur í dálítið einkennilega stöðu að Bandaríkjamenn skyldu hverfa á braut og segjast ætla að standa að fullu við allar skuldbindingar sínar gagnvart varnarsamningnum en gera svo enga kröfu um að ratsjárstöðvarnar yrðu áfram í rekstri. Síðan kom krafa um það frá NATO, eftir langar viðræður við þá, að þeim sé viðhaldið og ég held að það sé skynsamlegt að þeim rekstri verði núna komið fyrir í Varnarmálastofnun. Við munum svo halda áfram að ræða það hvert við viljum helst beina kröftum okkar í þessu samstarfi í framtíðinni.