135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:03]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og lögum um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins.

Það eru tvær efnisgreinar í þessu frumvarpi og báðar lúta að því að veita iðnaðarráðherra heimild til þess að fela Orkustofnun vald til þess að veita leyfi samkvæmt þessum lögum. Þarna er um að ræða rannsóknarleyfi og nýtingarleyfi.

Þetta er í samræmi við tillögur sem auðlindanefnd, sem skilaði af sér skýrslu til ráðherra í október 2006, lagði fram. Hún taldi að veiting leyfa á grundvelli laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu ætti fyrst og fremst að lúta faglegu og sérfræðilegu mati og því taldi þessi nefnd að eðlilegt væri að færa úthlutun leyfanna alfarið frá iðnaðarráðuneytinu til Orkustofnunar. Það er rétt að geta þess að allir þingflokkar áttu fulltrúa í þessari nefnd og allir nefndarmenn voru sammála um þessa tilteknu breytingu. Ég legg hana því hér fram í frumvarpsformi, herra forseti.

Það eru ýmis rök sem menn hafa talið fyrir því að flytja leyfisveitingarvald ráðherrans til Orkustofnunar og ég tek það fram að hér er einungis um heimild að ræða. Þetta er í samræmi við aðra löggjöf á sviði auðlinda- og orkumála, m.a. lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, frá 2001, og svo náttúrlega raforkulögin sem og frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu sem var lagt var fram á 133. löggjafarþingi.

Það er hægt að færa sterk rök fyrir því að stjórnsýsla af þessu tagi eigi heldur heima á verksviði fagstofnunar sem starfar á sviði auðlinda- og orkumála heldur en hjá ráðuneytinu sjálfu. Ég held að það sé alveg ljóst að það skapar hagræði í stjórnsýslunni og það þjónar vel hagsmunum þeirra sem eru að sækja um leyfi að geta beint öllum sínum erindum til sama stjórnsýsluaðila. Ég tel því að það standi sterk rök að því að leyfishafar og þeir sem sækja um leyfi eigi samskipti við sama stjórnvaldið á öllum stigum þeirrar starfsemi sem er orpin undir viðkomandi lög.

Ég held sömuleiðis að það sé alveg ljóst að þetta framsal á leyfisveitingum til Orkustofnunar einfaldi ferli umsagna vegna laga um mat á umhverfisáhrifum en samkvæmt þeim lögum á Skipulagsstofnun að leita álits m.a. leyfisveitenda vegna framkvæmda sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Þar af leiðandi felst í því ákveðin einföldun að það sé Orkustofnun sem veiti umsögn um tilteknar framkvæmdir, bæði sem leyfisveitandi og líka sem fagstofnun á sviði auðlinda- og orkumála. Má segja að við það fáist ekki eingöngu faglegri umsögn heldur ætti verkferli með þessum hætti að auka hraða málsins meðan á umsagnarferlinu stendur samkvæmt skipulagslögunum. Þá er verið að leita umsagnar einnar stofnunar í stað tveggja áður.

Það sem mér finnast þó vera sterkustu rökin fyrir þessu og gera það að verkum að breytingin er mjög ákjósanleg eru þau rök sem til þess standa út af sjónarmiðum um réttaröryggið. Verði þetta frumvarp að lögum getur umsækjandi borið ákvörðun Orkustofnunar undir ráðuneytið. Hann getur sem sagt skotið umdeildri ákvörðun frá viðkomandi stofnun til æðra stjórnsýslustigs og þannig látið fjalla um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins áður.

Fyrir utan það, eins og ég hef þegar rakið, er hér um að ræða mikla einföldun á meðferð máls og vonandi stytting á málsmeðferðartíma því að eins og kunnugt er hefur ráðuneytið sent flestar umsagnir um leyfi hvort sem er til umsagnar hjá Orkustofnun.

Af því að hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins Guðni Ágústsson hlýddi nú á meginpart ræðu minnar þá vil ég rifja það upp að á þeim tíma sem hann sat sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands var samþykkt aðgerðaáætlun um einfaldara Ísland. Það var í október 2006, ef ég man rétt. Það tók að vísu iðnaðarráðuneytið heilt ár að hrinda þessu í framkvæmd fyrir sitt leyti. Í september á síðasta ári 2007 setti ráðuneytið sér slíka áætlun og þetta frumvarp er liður í því að gera Ísland einfaldara hvað varðar stjórnsýslu og draga úr skrifræði.