135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu o.fl.

553. mál
[18:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta var vond ræða hjá hv. þingmanni og bar vott um mikið skilningsleysi hennar og þekkingarleysi bæði á því frumvarpi sem hér er um að ræða, á fortíð síns eigin flokks, að því er varðar þetta mál, og stóriðju almennt. Hv. þingmaður virðist ekki gera sér grein fyrir því að fortíðinni var allt öðruvísi háttað hvað varðar leyfi til stóriðju og virkjana en hv. þingmaður taldi hér upp áðan. Það var ekki þannig að valdið lægi hjá ráðherra. Það vald lá hjá Alþingi. Ef hv. þingmaður hefði skoðað ræður mínar betur hefði hún komist að því og ekki þurft að leita víðar fanga til þess að koma hér sæmilega upplýst í umræðuna. Ég hef margsinnis haldið ræður um það að ég tel að æskilegast væri að þau leyfi væru hér hjá hinu háa Alþingi þar sem allir fulltrúar úr hinum ólíku kimum samfélagsins ættu kost á að fjalla um það.

Áður var það með þeim hætti að menn tóku ákvarðanir um virkjanir á Alþingi Íslendinga og þá fylgdu þeim ákvörðunum yfirlýsingar um það, í greinargerðum með viðkomandi frumvörpum, til hvers ætti að nota orkuna. Þannig hafði Alþingi í reynd heimild og vald til þess að veita leyfi til virkjana og sömuleiðis til stóriðju. Það pólitíska vald, sem iðnaðarráðherra eða ríkisstjórn hafði á þeim tíma, fólst í því að iðnaðarráðherra hverju sinni þurfti líka að skrifa upp á orkusölusamninga. Það er víðs fjarri því sem hv. þingmaður lýsti hér áðan að einum tilteknum ráðherra hefði verið falið í vald að taka ákvörðun um hvort það ætti að virkja og byggja stóriðju. Það hefur aldrei verið svoleiðis eins og hv. þingmaður ætti að kynna sér.

Hv. þingmaður lýsti mikilli vantrú og vantrausti á Orkustofnun. Ég frábið mér slíkan áburð án raka á hendur stofnun. Hv. þingmaður sagði hér og hló við fót í ræðustól: Já, er þetta stefnan, allt vald til Orkustofnunar? Orkustofnun er fagleg stofnun sem byggir sín álit og úrskurði á sérfræðingum sem eru ekki festir á pólitískan klafa og þessi ráðherra a.m.k. skipar ekki stofnunum sínum til verka með þeim hætti að verið sé að beygja faglegan metnað eða faglegan sjálfstæðan vilja starfsmanna. Það er svo einfalt mál.

Ef hv. þingmaður teldi að æskilegt væri að hinn pólitíski vilji ráðherra kæmi fram ætti hún einmitt að fallast á þetta frumvarp eins og fulltrúi VG í auðlindanefndinni gerði á sínum tíma, þ.e. hina efnislegu gerð þess. Hér er um það að ræða að Orkustofnun er hinn faglegi aðili sem fer yfir málin, leitar fanga eftir atvikum, leitar álits annarra stofnana líka. Þegar sá úrskurður er fallinn kann hann að falla í misjafnan jarðveg. Ef um er að ræða að einhverjir þeir sem málið heyrir til lögum samkvæmt eru á móti — eins og hv. þingmaður veit er þar um að ræða samtök sem starfa á landsvísu og hafa a.m.k. 30 fulltrúa innan sinna vébanda — þá getur viðkomandi kært til ráðherra. Það er þá á því sviði, á því stigi stjórnsýslunnar, sem hinn pólitíski vilji, ef það er það sem hv. þingmaður vill kalla fram, ætti að geta birst. Það er því algjörlega fráleitt að halda því fram að hér sé verið að skjóta sér undan ábyrgð. Það er ómögulegt að halda því fram þegar þessi leið er opin og greið og endar beint á skrifborði ráðherrans með kæru.

Hv. þingmaður getur gert eins og hún gerði hér í andsvari sínu áðan, reynt að færa einhver rök fyrir því að 30 dagar séu ekki nægilegur frestur. Ég sagði við hv. þingmann: Ég er reiðubúinn til þess að skoða hvað sem er í þessu máli ef hv. þingmaður kemur með rök. Ég beið eftir ræðu hv. þingmanns. En hvar voru rökin? Það komu engin rök. Hún fór hérna með vitleysur, rangar staðreyndir, rangar upplýsingar um fortíðina og vildi ekki horfast í augu við það hvað hennar eigin flokkur hefur gert í þessu máli. Það kom mér reyndar ekki á óvart. Þegar hv. þingmaður kemur hér og reynir að láta sína heldur grönnu svipu og máttlitlu ríða á baki ráðherra, sem lítið finnur undan því, þá ætti hv. þingmaður að skoða fortíð síns eigin flokks.

Hvernig er fortíð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs varðandi stóriðju hér á Íslandi? Hv. þingmaður þarf ekki annað en fara í þingtíðindi til þess að sjá það og skoða fjölmiðla. Formaður flokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, studdi Keilisnes á sínum tíma, 1990. Hann lýsti því yfir að álframleiðsla væri umhverfisvernd í sjálfu sér. Hann lýsti því yfir að ál væri umhverfisvænn málmur og hann lýsti því yfir að það væri mjög jákvætt ef Íslendingar gætu tekið svolítið af mengunarklafa heimsins á sínar herðar með því að reisa hér álver á Keilisnesi til þess að draga úr því að menn væru að framleiða ál úti í heimi sem rekið væri á olíu og kolum. Þetta sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon.

Sami þingmaður lýsti því yfir fyrir kosningarnar 2003, á fundi á Húsavík, að hann styddi álver á Bakka. Það er til skjalfest og er alveg sjálfsagt að sýna hv. þingmanni það eða eftir atvikum að lesa hér upp í þinginu frásögn af þeim fundi. Hún hékk uppi á norðlenskum vefmiðli í þrjú ár. Það er því engum blöðum um það að fletta að þarna talar forusta VG tungum tveim.

Það var líka hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem lýsti því yfir tveimur dögum eftir kosningar frammi fyrir alþjóð í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 í hádeginu að, eins og hann orðaði það, Helguvík yrði ekki „últimatum“ ef svo færi að efnt yrði til stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokki og VG. Það liggur því alveg klárt fyrir að ef þetta eru prinsipp VG var flokkurinn algjörlega reiðubúinn til þess að fleygja þeim fyrir ætternisstapa bara til þess að geta skriðið upp í hjónasængina hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta er staðreyndin.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson greiddi á sínum tíma í stjórn Orkuveitunnar atkvæði gegn því að selja orku frá Orkuveitunni til stækkunar álvers í Straumsvík — en hann greiddi atkvæði með því að selja sömu orku til álversins uppi á Grundartanga sem rekið er af Norðuráli. Með öðrum orðum, það var ekki prinsippið „engin stóriðja“ hjá hv. þingmanni, sem þá var borgarfulltrúi, heldur var það staðsetningin sem skipti máli. Með öðrum orðum, í prinsippinu er þessi þingmaður ekki andstæður stóriðju eins og hv. þingmaður er að reyna að halda fram að þingmenn VG séu.

Á ég að halda áfram, frú forseti? Einn annar þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiddi líka atkvæði hér á sínum tíma þegar ég var í salnum með stækkun álvers í Straumsvík, það er svo einfalt mál. Það liggur því fyrir að meiri hluti þeirra þingmanna sem sitja á þingi sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa á sínum ferli stutt álver. Formaðurinn hefur stutt þrjú og hann hefur glæstastan feril. Hann er búinn að styðja einhver álver allt frá 1990 til ársins 2007. Þetta liggur bara fyrir. Svo getur hv. þingmaður komið hér og talað um að menn séu ekki samkvæmir sjálfum sér.

Það eina sem ég var sammála hv. þingmanni um var undir lok ræðu hennar sem, eins og ég sagði, mér fannst ekki góð og ekki sæmandi þingmanni með metnað eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sýnir yfirleitt. Þar sagði hv. þingmaður að krafan væri sú að engin rannsóknar- og nýtingarleyfi yrðu gefin út fyrr en búið væri að samþykkja hér á Alþingi rammaáætlun um nýtingu og verndun íslenskrar náttúru og sömuleiðis þegar búið væri að samþykkja náttúruverndaráætlun. Herra trúr, þetta er stefna þessarar ríkisstjórnar og sá ráðherra sem hv. þingmaður á nú orðastað við er ráðherrann sem kastaði út af borðinu öllum umsóknum um rannsóknarleyfi sem lágu þar þegar hann steig inn í ráðuneytið. Af hverju? Vegna þess að við höfum samþykkt og sett af stað þessa rammaáætlun með þeirri yfirlýsingu að engin rannsóknar- og nýtingarleyfi verði gefin út á óröskuðum svæðum fyrr en fulltrúar allrar þjóðarinnar, þ.e. þingmenn á löggjafarsamkundunni, hefðu fengið tækifæri til þess að fjalla um og gera breytingartillögur og athugasemdir við þá áætlun sem mun koma fram samkvæmt áætlun undir lok ársins 2009, og væntanlega rædd hér í byrjun árs 2010. Það er því tóm vitleysa sem hv. þingmaður segir að veita eigi einhver rannsóknar- og nýtingarleyfi áður. Ekkert kemur fram um það í frumvarpinu. Ég hef lýst þessu margsinnis yfir og hvernig í ósköpunum dettur hv. þingmanni í hug að ég ætli að fara á bak þeirra orða sem ég hef margsinnis sagt?

Óröskuð svæði verða óröskuð þangað til Alþingi Íslendinga er búið að taka ákvörðun um það hvaða svæði á að taka frá fyrir framtíðina og komandi kynslóðir. Alveg sama hversu billegur málflutningur hv. þingmanna VG er hér í dag, það er ekkert sem breytir því. Hv. þingmaður virðist hvorki skilja það sem búið er að segja margsinnis hér í þingsölum né heldur skilja þetta frumvarp þegar hún heldur því fram að með þessum hætti sé verið að greiða leiðina fyrir stóriðjuna til þess að rányrkja landið. Herra trúr. Staðan í dag samkvæmt núverandi kerfi er þannig að menn sækja til iðnaðarráðuneytisins sem sendir það til Orkustofnunar og þeir sækja líka til Orkustofnunar. Með öðrum orðum, það er verið að taka út úr kerfinu þennan hlykk sem er á leiðinni, (ÁI: Leið hverra?) sem er á leiðinni frá leyfisumsækjanda til iðnaðarráðuneytis og þaðan til Orkustofnunar. Það er verið að einfalda þetta, það er það sem verið er að gera.

Ef síðan kemur í ljós að menn eru ekki sáttir um það, við hinn faglega úrskurð Orkustofnunar, hafa þeir réttinn til þess að setja þetta aftur á borð iðnaðarráðuneytisins. Með öðrum orðum, það er verið að gera ráð fyrir umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum. Þetta er það sem menn kalla réttaröryggi, frú forseti, í dag þó að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gefi ekki neitt fyrir það, gefi ekki neitt fyrir þær skoðanir sem stallsystir hennar hafði nákvæmlega á þessum hlutum þegar þeir voru til umfjöllunar í auðlindanefndinni á sínum tíma.

Það er kannski ýmislegt fleira sem hægt væri að segja líka um ræðu hv. þingmanns. Mergurinn málsins er sá að hv. þingmaður hefur lítil efni á að koma hér og hreykja sér eins og faríseinn gagnvart tollheimtumanninum á sínum tíma vegna þess að það liggur alveg fyrir að VG ekur seglum eftir vindum í þessu dæmi. Þegar VG þarf að selja sína stóriðjustefnu til þess að komast til valda hefur það komið í ljós að flokkurinn er reiðubúinn til þess. Fimm sinnum hafa þingmenn VG á ferli sínum hér og í borgarstjórn Reykjavíkur greitt atkvæði með stóriðju. Það er kannski hentugt fyrir flokkinn að koma núna og berja sér á brjóst, en þegar á reynir hefur annað komið í ljós.