135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Formaður menntamálanefndar Alþingis, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur sagt í fjölmiðlum að það sé aðeins tímaspursmál hvenær opinberum háskólum verði veitt heimild til að innheimta skólagjöld. Orðrétt er haft eftir formanni nefndarinnar í Fréttablaðinu þann 13. apríl sl., með leyfi forseta:

„Stjórnarflokkarnir verða að taka afstöðu til þess og mér hefur fundist þetta sjónarmið njóta sífellt meiri stuðnings í samstarfsflokknum.“

Formaður menntamálanefndar er auðvitað að segja að þessi mál séu til umræðu innan stjórnarflokkanna og að innan Samfylkingarinnar sé vaxandi stuðningur við það að taka upp skólagjöld í opinberum háskólum. Hv. þm. og varaformaður menntamálanefndar, Einar Már Sigurðarson, segir í sama blaði vegna orða formanns nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Það verkefni sem bíður okkar er að svara þeirri spurningu hvernig við getum jafnað samkeppnisstöðu háskólanna svo allir sitji við sama borð.“

Og síðar, með leyfi forseta:

„Ég hef þó ekki þá mælistiku að geta kastað reiður á það hvort sífellt meiri stuðningur sé um þessar hugmyndir eins og Sigurður segir í mínum flokki.“

Með öðrum orðum getur hv. varaformaður menntamálanefndar ekki áttað sig á því hvort um aukinn stuðning sé að ræða í hans eigin flokki um upptöku skólagjalda í opinberum háskólum.

Ég vil því beina orðum mínum til hv. þingmanns og varaformanns menntamálanefndar, Einars Más Sigurðarsonar, og spyr hver afstaða Samfylkingarinnar er varðandi upptöku skólagjalda í opinberum háskólum. Er varaformaður menntamálanefndar sammála því áliti formanns nefndarinnar að það sé aðeins tímaspursmál hvenær heimilt verður að taka upp slík gjöld? Mun Samfylkingin ljá máls á því að opinberum háskólum verði veitt heimild til að innheimta skólagjöld og eru þau mál nú til umræðu innan stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) eins og formaður menntamálanefndar segir vera?