135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

skaðabætur til fjölskyldna fórnarlamba í sprengjuárás gegn íslenskum friðargæsluliðum.

561. mál
[14:12]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að bera fram spurningar um þetta mál og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð svör. Ég held að þarna sé skynsamlega að verki staðið enda mikilvægt að leiða í ljós allar staðreyndir málsins.

Ég kem fyrst og fremst upp til að gera athugasemd við innganginn að spurningu hv. þingmanns sem mér fannst algerlega ótækur og ósamboðinn þinginu. Að gera því skóna að það sé á ábyrgð friðargæsluliða að á þá sé ráðist er náttúrlega gríðarlega varhugaverður áburður. Ég tók einnig eftir að þarna var enn og aftur reynt að klifa á þeirri villukenningu að Atlantshafsbandalagið standi fyrir hernaði í Afganistan þegar fyrir liggur að Atlantshafsbandalagið er í Afganistan að beiðni Sameinuðu þjóðanna og í umboði þeirra og að sérstakri ósk þeirra. Á tyllidögum þykjast hv. þingmenn Vinstri grænna vilja vinna í umboði Sameinuðu þjóðanna en það er mjög sérkennilegt að sjá hvernig þeir færa stöðugt úr lagi staðreyndir þessa máls þegar það hentar þeim.