135. löggjafarþing — 92. fundur,  16. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[16:10]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Að frumvarpi þessu samþykktu er Ísland endanlega fastreyrt sem hlekkur í hernaðarkeðju NATO án þess að um það hafi farið fram lýðræðisleg umræða eða pólitískt samráð eins og lofað var þegar bandaríski herinn fór loks af landi brott 2006. Með frumvarpinu er gengið lengra í hervæðingu, sannkallaðri NATO-væðingu en áður hefur verið gert og NATO er færður óútfylltur tékki á ríkissjóð til heræfinga og til rekstrar hernaðarmannvirkja hér á landi. Þá miklu fjármuni ætti að nota til brýnni verkefna sem lúta að öryggi borgaranna svo sem löggæslu og til starfsemi landhelgisgæslu og björgunarsveita.

Hér er mörkuð sú stefna að Íslendingar, sem eru herlaus þjóð, taki fullan þátt í aukinni vígvæðingu í heiminum í stað þess að leggja lóð á vogarskálar friðar og afvopnunar. Allt byggir þetta á forsendum hernaðarbandalagsins NATO en ekki á íslenskum öryggishagsmunum enda liggur boðað hættumat ekki fyrir.

Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.