135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

aðild starfsmanna við samruna félaga yfir landamæri.

533. mál
[16:07]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur það að markmiði að innleiða reglur til þess að vernda rétt starfsmanna félaga sem renna saman yfir landamæri, þ.e. félaga sem eru einkahlutafélög eða hlutafélög, félög með takmarkaða ábyrgð, svokölluð, til að vernda rétt starfsmanna til aðildar að ákvörðunum sem varða starfsemi félagsins sem þeir vinna hjá og tryggja að ekki falli niður réttur þeirra, m.a. til upplýsinga og til samráðs og til þátttöku í starfsemi og stjórnun félagsins þótt félagið fái skrifstofu eða höfuðstöðvar hér á landi.

Það sem vekur eftirtekt mína þegar ég skoða þetta frumvarp er tvennt. Í fyrsta lagi langar mig til þess að spyrja hverju það sætir að það hefur tekið heilt ár að koma fram með frumvarp sem tryggir þennan þátttökurétt starfsmanna eftir að hér voru samþykkt á síðasta ári lög nr. 54/2007. Ég minni á að þegar innleiðing Evróputilskipunarinnar um Evrópufélög var samþykkt á Alþingi komu þessi mál, annars vegar lög um Evrópufélög og hins vegar lög um aðild starfsmanna og til tryggingarréttar þeirra í Evrópufélögum, samhliða inn í þingið og voru samþykkt sama dag sem lög nr. 26 og 27, 27. apríl 2004.

Þetta er auðvitað miklum mun eðlilegra vinnulag, frú forseti, að mál sem þessi fylgist að í gegnum þingið eins enda þótt þau komi í rauninni frá tveimur ráðuneytum eins og hér um ræðir. Það er hæstv. viðskiptaráðherra sem leggur fram frumvarp til breytinga á félagaréttinum en hæstv. félagsmálaráðherra sem leggur fram mál sem varða þátttökurétt starfsmanna í löggjöfinni. Mig langar bara til þess að fá upplýst af hverju þetta verklag er viðhaft í þetta sinn, hvort einhver ljón hafi verið þar í vegi, af hverju þessi mál fylgdust ekki að á sínum tíma og af hverju þetta hefur tekið heilt ár.

Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að drög að frumvarpinu voru samin af Rannsóknarsetri vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst. Í því sambandi langar mig til að spyrja hvort haft hafi verið samráð við aðila vinnumarkaðarins við þessa frumvarpssmíð eins og reyndar var tekið fram þegar á sínum tíma, á árinu 2004, voru lögfestar tilskipanir frá Evrópusambandinu um hin svokölluðu Evrópufélög sem ég nefndi áðan. Þetta er annað atriðið, frú forseti, sem mig langar til að fá upplýsingar um.

Hitt atriðið varðar það sem fram kemur í upphafi greinargerðar með þessu frumvarpi að það eru ekki ákvæði um þátttökurétt starfsmanna í löggjöf okkar um einkahlutafélög og hlutafélög og þar af leiðandi ekki heldur í lögum nr. 54/2007, eins og er í dönskum rétti. Það er í rauninni ef ég skil þetta mál rétt ástæðan fyrir því að verið er að flytja þetta frumvarp.

Mér þykir forvitnilegt að vita hvernig þessum ákvæðum í danska réttinum er háttað. Á sínum tíma var heilmikil umræða í samfélaginu um svokallað atvinnulýðræði, þ.e. rétt starfsmanna til þess að fá upplýsingar sem varða starfsemi, stöðu og stefnu í rekstri fyrirtækisins, m.a. upplýsingar um stöðu sem er verið að verja ef félög koma hingað til lands og starfsmenn hafa haft slíkan rétt, að það detti ekki niður hér á landi.

Mér finnst þetta mjög spennandi málefni og mér þykir miður að við skulum ekki hafa líkt og Danir lagaákvæði sem tryggja þátttöku og aðild starfsmanna í félögum með takmarkaða ábyrgð nema þá að þessu frumvarpi samþykktu í svokölluðum samrunafélögum, sem sagt ekki í öðrum félögum ef ég skil þetta rétt.

Mig langar til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hún telji til greina koma að setja almennar reglur sem snerta þetta sama mál en þær tækju þá til fleiri félaga en þeirra sem varða Evrópufélögin annars vegar og samrunafélög hins vegar. Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir hæstv. félagsmálaráðherra.

Ég á ekki von á því að það verði mikill ágreiningur um einstaka efnisatriði þessa frumvarps. Það er mjög gott og eðlilegt að það verði gengið tryggilega frá því að réttindi starfsmanna sem hér er um rætt falli ekki niður við samruna. Mér þykir líka gott að sjá að ef samkomulag næst í samninganefnd um aðild starfsmanna um að minnka þann rétt þá þarf aukinn meiri hluta starfsmanna til þess að samþykkja það.