135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

breytingar á starfsemi Landspítalans.

[15:13]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég heyrði þessa hugmynd hafða eftir öðrum af starfandi forstjórum spítalans og ég hef ekkert við það að athuga að menn velti upp hugmyndum af þessu tagi. Skárra væri það nú ef menn hefðu ekki leyfi til þess, hv. þingmaður. Hins vegar hefur engin ný stefna um rekstrarform verið mótuð gagnvart spítalanum og hún er auðvitað endanlega tekin á Alþingi því að það þyrfti að breyta lögum um spítalann ef breyta ætti núverandi formi. Nefndin sem hv. þingmaður vísaði til hefur að sjálfsögðu tillögurétt í því efni og er ekkert athugavert við það.

Hins vegar verða menn aðeins að hugleiða í hvaða tilgangi fyrirbærið opinbert hlutafélag var stofnað og hvort það hæfir rekstri þar sem nánast allar tekjurnar koma úr ríkissjóði. Það þarf að velta því fyrir sér og það er ekki þar með sagt að þótt einhver maður hafi nefnt þetta sem hugmynd sé hún endilega besta hugmyndin sem völ er á í þessu sambandi.