135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Evrópumál.

[15:25]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Um helgina hefur verið fjallað nokkuð um Evrópumál í fjölmiðlum. Það er mjög mikilvægt að þingheimur fái að vita og átta sig betur á hvað stjórnarsáttmálinn þýðir þar sem fjallað er um Evrópumál og þess vegna spyr ég hæstv. utanríkisráðherra um það.

Í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Skýrsla Evrópunefndar verði grundvöllur nánari athugunar á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði í framtíðinni best borgið gagnvart Evrópusambandinu. Komið verði á fót föstum samráðsvettvangi stjórnmálaflokka á Alþingi sem fylgist með þróun mála í Evrópu og leggi mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga. Nefndin hafi samráð við innlenda sérfræðinga og hagsmunaaðila eftir þörfum.“

Það sem ég spyr um er í fyrsta lagi: Hvernig á að meta hagsmuni Íslendinga til framtíðar litið gagnvart Evrópusambandinu? Í öðru lagi: Á nefndin sem loksins hefur verið skipuð að leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga? Hvernig mun koma okkur fyrir sjónir hér, hv. þingmönnum og þjóðinni, þetta mat sem nefndin mun væntanlega gera á þeim breytingum sem eiga sér stað í Evrópu og hvernig það kemur við hagsmuni Íslands?

Þetta eru sem sagt tvær spurningar og ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra geti leitt okkur í allan sannleika um þetta mikilvæga mál.