135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:02]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Í tengslum við það frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp til laga um opinbera háskóla, hefur skiljanlega verið rætt talsvert um skólagjöld, reyndar hefur umræðan að langmestu leyti snúist um skólagjöld hvort heldur af hálfu hv. þingmanna stjórnarliða eða annarra hv. þingmanna. Það er að mörgu leyti skiljanlegt. Til að mynda hélt hv. þm. Katrín Júlíusdóttir ágæta ræðu áðan, mjög fína ræðu sem ég get efnislega tekið undir að langstærstum hluta. Lungann úr þeim tíma sem hún hélt sína ræðu fjallaði hún um skólagjöld, þ.e. um 24. gr. frumvarpsins sem fjallar um þau mál, þ.e. um fjárhagsmálefni opinberra háskóla og í raun og veru þau gagnrýnisatriði sem ég hef áður nefnt í umræðunni hér og við vinstri grænir. Sömu sögu má í raun segja um þá ræðu sem hv. þm. Mörður Árnason hélt í dag um sama mál þar sem hann fór einnig mörgum orðum um hugsanlega gjaldtöku og það sem hann vildi kalla mistakasetningar í frumvarpinu sem að vísuðu til þess að opnað væri fyrir heimild til gjaldtöku. Í þessu frumvarpi er víða opnað á þann möguleika að hægt sé að innheimta gjöld umfram þau sem eru nefnd í frumvarpinu sjálfu. Þess vegna sjá hv. þingmenn bæði stjórnarandstöðu og stjórnarliða ástæðu til að taka það mál upp hér og vara við því orðalagi sem þar er, hvort sem menn kalla það mistök, mistakasetningar eða að þær hafi komið þar inn að yfirlögðu ráði sem ég held að hljóti að vera þegar um stjórnarfrumvarp er að ræða.

Í 24. gr. frumvarpsins um fjárhagsmálefni er rakið hvernig standa eigi að fjárveitingum til skólanna og þar á meðal er talað um skrásetningargjöld sem nemendur greiði við skráningu. Þar er talað um gjöld til að standa undir yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Þar er talað um gjöld fyrir þjónustu sem háskólinn veitir og grundvölluð er á samningi við ráðuneyti o.s.frv.

Hvað sem okkur finnst um slík gjöld þá er víða fjallað um gjaldtöku í þessu frumvarpi og sérstaklega í 24. gr. Það sem hefur t.d. verið gagnrýnt af okkur í þessu frumvarpi og mér heyrist hv. stjórnarþingmenn í Samfylkingunni, margir hverjir, taka undir er heimildin eða eins og stendur orðrétt í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Háskólaráð geta gert tillögu til ráðherra um breytingar á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda.“

Það þýðir að háskólaráði er heimilt að sækja um hækkun gjaldanna eða breytingar á gjöldunum og það breytir í rauninni ekki því þótt skráningargjaldið sé lögfest 45 þús. kr. eins og stendur í frumvarpinu. Hvað ætla þingmenn að gera þegar háskólaráðið kemur með beiðni um hækkun gjalda vegna þess að háskólar hafa verið fjársveltir? Hvernig ætla þingmenn að taka á þeirri beiðni þegar hún kemur frá háskólaráðinu? Eru menn tilbúnir til að neita háskólaráði um gjaldtökuna eða munu þeir færa þau rök fyrir því að ósk um hækkun gjaldanna komi frá háskólanum og þess vegna verði menn að verða við henni?

Hvernig er staðan hjá háskólunum í dag, hvernig er fjárhagsstaða háskólanna? Í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var birt í þessum mánuði kemur fram að 12 af 13 stofnunum sem Ríkisendurskoðun fjallar um í þeirri skýrslu stóðu í verulegum halla í árslok 2007. Aðeins ein stofnun sem Ríkisendurskoðun skoðaði skilaði afgangi og það er kannski tímanna tákn að það skuli hafa verið sendiráð Íslands sem var með ónýtta heimild eftir að hafa fengið yfir hálfan milljarð í viðbótarheimild fyrir rekstur sinn á síðasta ári. Skólar voru hins vegar, hvort sem um er að ræða háskóla eða framhaldsskóla, allir í bullandi mínus, hver einn og einn einasti. Ef við vitnum í skýrslu Ríkisendurskoðunar og hvað segir um Háskólann á Akureyri og stöðuna þar þá er sá háskóli með uppsafnaðan halla upp á 321 millj. árið 2005, 337 millj. árið 2006 og 336 millj. árið 2007. Og hvað ætla hv. þingmenn stjórnarliðsins að segja við stjórnendur þessa skóla þegar þeir koma og óska eftir hærri skólagjöldum til að standa undir rekstrinum? Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir.

Það eru fleiri en við í stjórnarandstöðunni, þingmenn Vinstri grænna, sem hafa haft áhyggjur af þessum skólagjöldum og heimildinni til að taka gjöld, því að fyrir örfáum dögum sendu ungir jafnaðarmenn frá sér ályktun um málið þar sem þau vara mjög við því sem þau eins og flestir aðrir sjá í frumvarpinu, og þingmenn Samfylkingarinnar hafa sumir hverjir tekið undir, varðandi aukna gjaldtöku og þá ekki síður hugmyndafræðina sem felst í frumvarpinu og athugasemdum við 24. gr. sem ég er ekki viss um að hugnist samfylkingarþingmönnum eins og ég hef reyndar heyrt koma fram hér í ræðum þeirra. Það er kannski þess vegna sem ungir jafnaðarmenn sjá ástæðu til að álykta með þessum hætti en í ályktun þeirra segir að ungir jafnaðarmenn setji mikinn fyrirvara við ákvæði frumvarpsins um að auka gjaldtökuheimildir á nemendur vegna inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Ekki sé sett hámark á þessar heimildir eins og gert er um innritunargjöldin og gagnrýna ungir jafnaðarmenn sérstaklega þau ummæli í greinargerð með frumvarpinu að gjaldtakan eigi að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða hverju sinni.

Ég held að varla sé hægt að fara lengra frá grundvallarhugsjón jafnaðarmennskunnar en þetta, að stýra eigi þjónustunni sem háskólarnir eiga að veita, þ.e. möguleikum fólks að geta sótt háskóla og sótt sér menntun, með gjaldtöku. Lengra verður ekki farið, held ég. Ég trúi þeim hv. þingmönnum Samfylkingar sem hér hafa talað og að þeir tali af hjartans einlægni um það sem hefur komið fram í ræðum þeirra að þeir séu andsnúnir þessum orðum frumvarpsins. En þau standa þarna engu að síður og eftir sem áður er þetta stjórnarfrumvarp. Þetta er stjórnarfrumvarp ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það er ekki hægt að komast undan því.

Hv. þm. Mörður Árnason skrifar ágæta grein á heimasíðu Samfylkingarinnar einmitt um þessi mál, og tekur undir ályktun ungra jafnaðarmanna rétt eins og hann gerði í ræðustóli Alþingis fyrr í dag, og segir þar, með leyfi forseta, orðrétt:

„Langeðlilegast er að ríkisvaldið leggi opinberu skólagjaldafríu háskólunum til fé umfram „venjulegt“ framlag með hverjum nemanda, samkvæmt sérstökum reglum.“

Hann segir í löngu máli álit sitt á skólagjöldum eins og þau koma fram í frumvarpinu og hann taki ekki undir þau. Núna vill hann kalla þetta einhvers konar mistök, mistakasetningar, sem mér finnst reyndar dálítið bíræfið af mönnum að ætla sér að fjalla um frumvarp með þeim hætti að þar hafi slæðst inn einhverjar villur. En það eru ekki allir þingmenn Samfylkingarinnar sammála um þetta mál. Það er bara þannig eins og margoft hefur komið fram.

Í umræðu um þetta mál í síðustu viku, í stuttri en snarpri umræðu um þetta frumvarp, kom m.a. fram í máli hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, varaformanns menntamálanefndar og fulltrúa Samfylkingarinnar þar, að hann væri tilbúinn til að skoða aukna gjaldtöku í opinberum háskólum. Hann lýsti því hreinlega yfir að hann væri ekki bundinn af landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar. Hann segir það nánast berum orðum að hann sé tilbúinn til að skoða þessi mál frá öllum hliðum, fordómalaust eins og hann kallar það og er þá væntanlega að vitna til þess að gætt hafi einhverra fordóma í stefnu Samfylkingarinnar um að hafna algjörlega skólagjöldum.

Í kjölfar hans í síðustu viku kom hins vegar í ræðustól hv. þingmaður og samflokksmaður varaformanns menntamálanefndar, Katrín Júlíusdóttir, og leiðrétti varaformanninn nánast og sagði að það væri ekki rétt að Samfylkingin væri tilbúin að endurskoða þennan hluta í stefnumálum sínum. Stefna Samfylkingarinnar væri hvellskír, að sögn hv. þingmanns, og flokkurinn væri jafnstaðfastur og áður að tryggja að skólagjöld yrðu ekki tekin upp í opinberum háskólum. Ég trúði hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þegar hún fór með þessa ræðu því að ég vil trúa því að hún tali af hjartans einlægni og það sé sannfæring hennar að ekki eigi að taka upp skólagjöld í opinberum háskólum. Um það vitnar allur ferill hennar í þeim málum. En maður skyldi ætla að varaformaður menntamálanefndar, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, væri talsmaður Samfylkingarinnar í menntamálum og varðmaður stefnu flokksins í menntamálanefnd. En á hvorum á þá að taka mark, hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, varaformanni menntamálanefndar og fulltrúa Samfylkingarinnar í menntamálanefnd og talsmanni flokksins þar hlýtur að vera, eða hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur þegar hún fer öðrum orðum um þessi mál en varaformaðurinn?

Það er líka athyglisvert að heyra hvað aðrir þingmenn Samfylkingarinnar og þar á meðal ráðherrar Samfylkingarinnar hafa sagt um þessi mál, um gjaldtöku í opinberum skólum. Í viðtali við ríkissjónvarpið þann 14. janúar 2007 sagði Björgvin G. Sigurðsson, núverandi hæstv. viðskiptaráðherra, eftirfarandi um skólagjöld, og fyrirsögnin er reyndar Þingmaður Samfylkingarinnar útilokar ekki skólagjöld. — Nú sé ég að formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, kinkar kolli og brosir þakklátur stuðningnum. — En Björgvin G. Sigurðsson, hæstv. viðskiptaráðherra, segir eftirfarandi um skólamál, aðspurður um álit á þeim málum, með leyfi forseta:

„En það þarf fyrst og fremst að ráðast í uppstokkun og endurskoðun á fjármögnun háskólastigsins alls þar sem skoðuð eru skólagjöld, þar sem skoðuð er aðkoma fyrirtækja og einstaklinga að rekstri skólanna.“ — Ég ítreka „þar sem skoðuð eru skólagjöld, þar sem skoðuð er aðkoma fyrirtækja og einstaklinga að rekstri skólanna.“

„En skólagjaldtöku á sumum sviðum er ekki hægt að útiloka að mínu mati“, segir hæstv. núverandi viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson. Það er nú varla hægt að tala öllu skýrara um þau mál. Ég heyrði það hér fyrr í dag að þingmönnum Samfylkingarinnar fannst það ómaklegt að vitnað væri í formann sinn, hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í viðtal sem tekið var við hana í Viðskiptablaðinu fyrir aðeins liðlega þremur árum þegar hún var í formannsslag, að berjast fyrir því að komast í formannssæti í Samfylkingunni. Undir fyrirsögninni Á samkeppnismarkað nýrra hugmynda, er viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og í undirfyrirsögn er talað um að skólagjöld í opinberum háskólum séu raunhæfur kostur. Hvorki meira né minna, alls ekki útilokað. Ég vitna í þetta viðtal þar sem blaðamaður spyr verðandi formann Samfylkingarinnar að því hvort hún sé sammála menntamálahópi flokksins sem segir að banna eigi grunnskólum sem fá opinbert fé að innheimta skólagjöld. Með leyfi forseta, svarar hæstv. núverandi utanríkisráðherra því:

„Mér finnst ekki að það eigi að banna þeim að innheimta skólagjöld.“

Þetta er alveg hreint og klárt, klippt og skorið. Það er ekki hægt að velkjast í vafa með það hvað formaðurinn á við. Og hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ítrekar þessa skoðun sína í viðtalinu þegar hún er spurð að því hvar hún nákvæmlega standi í skólagjaldamálum varðandi opinbera skóla, og segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst skólagjöld á háskólastigi alveg geta komið til álita.“

Það er að koma á daginn núna með þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem hér er til umræðu. Hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. viðskiptaráðherra og sumir þingmenn hv. Samfylkingarinnar eru ekki bara þeirrar skoðunar að þeir telji að þetta komi til greina heldur eru þeir með stuðningi sínum við þetta stjórnarfrumvarp að lýsa (Forseti hringir.) yfir þeirri skoðun sinni að það komi ekki bara til greina heldur séu þeir stuðningsmenn skólagjalda.