135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:17]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sé mig knúna til þess að koma hér upp út af orðum hv. þingmanns þar sem hann var að hafa eftir hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni og gera honum upp orð. Það er augljóst að hv. þingmaður var ekki með ræðu Einars Más Sigurðarsonar fyrir framan sig þegar hann hélt því fram að það væri hans skoðun að það ætti að ræða sérstaklega skólagjöld í því samhengi að jafna stöðu háskólanna að öðru leyti en því að hann segir í sinni ræðu að það sé verkefni stjórnarflokkanna að tryggja jafnstöðu háskólanna en hvaða leið sé best til þess sé hins vegar rétt að skoða fordómalaust. Lykilatriði í þeirri umræðu — og þetta vil ég biðja hv. þingmann að hlusta vel á — af því að hv. þm. Einar Már Sigurðarson, varaformaður menntamálanefndar, sagði, með leyfi forseta:

„Lykilatriðið í þeirri umræðu er að jafnstaðan sé tryggð og jafnrétti til náms sé tryggt.“

Þetta sagði hv. þingmaður. Hann endurtekur í sinni ræðu að það sé grundvallaratriði að jafnrétti til náms sé tryggt. Síðan veltir hann upp sömu spurningum og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði hér fyrir helgi þegar við ræddum þetta mál fyrst um hvort það sé eðlilegt að skólagjöld séu tekin af ýmsu námi, til dæmis á framhaldsstigi. Þetta gerði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir einnig í sinni ræðu hér fyrir helgi og var þar að vísa til MBA-námsins. Við skulum hafa það alveg á hreinu að stefna okkar er auðvitað skýr í þessu.

Ég vil gjarnan koma inn á fleira í hans máli sem var beinlínis, já, dálítið undarlegt og ég átta mig ekki alveg á tilgangi þess. Ég kem að því í mínu seinna andsvari. Ég vil að hv. þingmaður dragi þá fram (Forseti hringir.) hvaðan hann hefur þetta eftir hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, þetta sem hann hélt fram hér áðan. Ég er með ræður hans hér fyrir framan mig og þær segja allt (Forseti hringir.) aðra sögu en hv. þingmaður hélt hér fram.