135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:22]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður veit ekki eiginlega hvort maður á að nenna að standa í svona vitleysu vegna þess að hv. þingmaður nefnir hér setningu í ræðu hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og fer með hana hálfa. Hann fer með hana hálfa! Hvaða skrípaleikur er þetta? Getum við ekki rætt þessi mál heiðarlega?

Ég get sagt það, virðulegi forseti, að hann hefur hér eftir hálfa setningu eftir hv. þm. Einar Má Sigurðarson sem segir, með leyfi forseta:

„Ég held að við þurfum að setja ramma utan um þetta mál og við eigum að nálgast það fordómalaust ...“

Hv. þingmaður setur þar punkt. En það er rangt haft eftir vegna þess að hv. þm. Einar Már Sigurðarson heldur síðan áfram og segir, með leyfi forseta::

„... með það sem grundvallaratriði að tryggja jafnrétti til náms.“

Ég skil ekki, virðulegi forseti, hvaða dellu maður er að standa hér í. Við skulum ræða þessi mál heiðarlega en ekki klippa (Gripið fram í.) í sundur setningar fjarstaddra manna sem ekki geta verið hér til að verja orð sín.

Einu verð ég líka að koma hér á framfæri. Hér er mikið vitnað í orð hv. þingmanns og hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur frá árinu 2004. Við skulum alveg hafa það á hreinu að það eru tekin há skólagjöld til dæmis í Háskóla Íslands í framhaldsnámi, í MBA-námi eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á í síðustu viku í sinni ræðu. Sumir eru hlynntir þeim. Aðrir eru það ekki. Hæstv. ráðherra var bara að lýsa þarna líka ákveðnum veruleika sem blasir við í skólakerfinu.

Ég get líka sagt hv. þingmanni frá því að frá árinu 2004 hefur Samfylkingin rætt málefni skólanna og hefur rætt skólagjöld og komst síðan að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu sem landsfundurinn komst að árið 2007 eða fyrir réttu ári síðan um að það kæmi ekki til greina að taka þau upp og við það stendur. Við það stendur. (Forseti hringir.) Ég vil biðja menn um að hafa hér rétta hluti eftir og halda þeim til haga.