135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[21:40]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó ég sé næst á mælendaskrá kýs ég að nota andsvarsformið til að fá fram strax upplýsingar hjá hæstv. forsætisráðherra sem mælir fyrir þessu máli. Þetta er mál sem stefnir í rétta átt en nær ekki alla leið að mínu mati og ég mun færa fram rök fyrir því á eftir í minni ræðu.

Ég vil gjarnan spyrja hæstv. forsætisráðherra alveg sérstaklega út í það sem kom fram í ræðu hans hérna áðan. Ef ég man ártölin rétt þá var það árið 2000 að þingið heimilaði samkynhneigðum að ættleiða börn maka síns.

Árið 2006 samþykkti þingið að samkynhneigðar konur gætu farið í tæknifrjóvgun og það sama ár, 2006, samþykktum við að samkynhneigðir gætu ættleitt börn almennt, þ.e. annar hvor aðilinn í parinu þurfti ekki að vera líffræðilegt foreldri barnsins sem ættleitt er.

Er það ekki algjörlega á hreinu og er það ekki algjörlega túlkun hæstv. forsætisráðherra að með þessum nýjungum sem við samþykktum árið 2000 og 2006 þá er þingið að segja mjög skýrt að samkynhneigðir séu algjörlega jafnhæfir uppalendur og gagnkynhneigðir og alls ekkert síðri? Er ekki algjörlega klárt í huga hæstv. forsætisráðherra að samkynhneigðir geta veitt börnum algjörlega jafngott uppeldi og öruggt skjól og gagnkynhneigðir foreldrar?

Ég tel að það sé mikilvægt að þetta komi hér fram af því það eru þau rök sem kirkjan hefur helst notað gegn því að veita leyfi fyrir hjúskap samkynhneigðra, þ.e. að það gildi (Forseti hringir.) ein hjónabandslög í landinu.