135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[22:12]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi síðustu ræðu á þann veg að við værum að klára þessi mál og værum að stíga skrefið til fulls, að allt væri komið í höfn og nú ættu samkynhneigðir að vera mjög glaðir. Samkynhneigðir eru sjálfsagt glaðir með frumvarpið af því að það er skref í rétta átt en skrefið er alls ekki stigið til fulls, það er einhver misskilningur ef hv. þingmaður telur það.

Samtök samkynhneigðra hafa einmitt bent á að ekki er verið að stíga skrefið til fulls með þessu máli. Það værum við að gera ef við samþykktum málið sem liggur nú í allsherjarnefnd, þá værum við að stíga skrefið til fulls. Þá værum við að veita prestum eða forstöðumönnum trúfélaga heimild til að vígja samkynhneigða til hjúskapar eins og gagnkynhneigða. Þá er engin mismunun eftir. Mismunun verður enn eftir gagnvart þessum hópi þó að við samþykkjum það mál sem nú er lagt til. Það er skref í rétta átt. Það er gott en ekki er verið að ganga alla leið. Það er að mínu mati slæmt en allt í lagi. Það kemur síðar.

Ég er sannfærð um að þetta verður samþykkt síðar, það er bara spurning um tíma. Það verður ekki þannig í framtíðinni að við teljum eðlilegt að tvenn hjúskaparlög séu í landinu, annars vegar fyrir gagnkynhneigða og hins vegar fyrir samkynhneigða. Það verður ekki framtíðin. Svo að það sé alveg skýrt þá erum við ekki að stíga skrefið til fulls gagnvart þessum hópi. Hann mun áfram berjast fyrir því að ein hjúskaparlög verði í landinu og þeirri baráttu mun ekki ljúka fyrr en það er í höfn.